Erlent

Fleiri hryðjuverk í Rússlandi?

Sprengiefni og skotvopn hafa fundist í kvikmyndahúsi í Pétursborg í Rússlandi en húsið var lokað vegna viðgerða. Málið vekur óhug og þykir minna um margt á það hvernig hryðjuverkamennirnir undirbjuggu árásina á skólann í Beslan. Alls konar efni til sprengjugerðar; dínamít og plastsprengiefni auk heimatilbúinna hvellhetta fundust í bíóinu. Að auki var þar riffill og skotfæri. Enn er óljóst hverjir komu þessum búnaði fyrir í húsinu en aðfarirnar minna á það hvernig hryðjuverkamennirnir í Beslan komu sprengjum fyrir í skólanum á meðan verið var að gera við hann. Yfirvöld í Rússlandi eru sérstaklega á verði vegna hryðjuverka en fréttaskýrendur telja þó að þessi sprengjufundur þurfi ekkert endilega að tengjast hryðjuverkahópum. Starfsemi skipulagðra glæpahópa er umfangsmikil í Pétursborg og talið er allt eins líklegt að þessi fundur tengist að einhverju leyti innri baráttu glæpahópa. Utanríkisráðherra Rússa var afar þungorður í garð Vesturlanda í dag og sakaði vestræn stjórnvöld um tvöfeldni þegar kemur að málefnum hryðjuverkahópa. Það sem svíður Rússa mest er að Aslan Maskhadov, fyrrverandi forseti Tsjetsjeníu, sem Rússar hafa nú sett fé til höfuðs og saka um að hafa skipulagt árásina í Beslan, hefur fengið hæli, bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×