Erlent

Mannskæð flóð í Kína

Á annað hundrað manns fórust og tuga er saknað eftir miklar rigningar og flóð í suðvesturhluta Kína. Níu þúsund manns til viðbótar voru fluttir veikir eða slasaðir á sjúkrahús vegna flóðanna og aurskriða sem fylgdu vatnsveðrinu. Vatnavextir eru svo miklir að yfirvöld óttast að þeir valdi skemmdum á Þriggja gljúfra stíflunni miklu við Yangtze-fljót sem stjórnvöld lögðu mikla fjármuni í að byggja og sögðu að yrði til þess að stemma stigu við flóðum á svæðinu. Gerð stíflunnar varð til þess að 1,3 milljónir íbúa ofan stíflunnar þurftu að flytja sig um set þar sem heimili þeirra lentu undir vatni. Miklum siglingaskurðum og skipalásum hefur verið komið upp í tengslum við stífluna og þurfti að loka þeim fyrir umferð vegna flóðanna. Er það í fyrsta sinn sem slíkt gerist frá því kerfið var tekið í notkun fyrir rúmu ári. Sjúkralið var sent til Kaixian-sýslu til að koma í veg fyrir farsóttir. Þar eru 100.000 manns án nothæfs drykkjarvatns og tugþúsundir hafa lokast af vegna flóða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×