Erlent

Flokksþing hefst í dag

Forseti Bandaríkjanna á hvorki að vera demókrati né repúblíkani, íhaldssamur né frjálslyndur. Hann á að vera leiðtogi. Þetta eru skilaboðin sem senda á frá flokksþingi repúblíkana sem hefst í New York í dag. Ráðstefnan hefst klukkan sex að staðartíma, svo að hægt sé að senda sem mest af henni út á besta sjónvarpsstíma - þó að það séu aðeins fréttastöðvar sem fylgjast með. Hún hefst í dag með því að hryðjuverkaárásanna ellefta september 2001 og fórnarlamba þeirra verður minnst. En ráðstefnan fer einmitt fram í Madison Square Garden, sem er aðeins um sjö kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem tvíburaturnarnir stóðu. Meðal þeirra sem stíga fyrstir á stokk eru John McCain, þingmaður, og Rudy Guiliani, fyrrverandi borgarstjóri í New York. Þeim er ætlað að móta þá ímynd sem Repúblíkanar vilja selja: að flokkurinn sé opinn og ekki nærri eins íhaldssamur og halda mætti. Reyndar eru hvorki McCain né Guiliani í takt við meirihluta flokksins eða Bush forseta, sem eru töluvert til hægri við þá báða. En þeir eru taldir líklegri til að höfða til óákveðinna kjósenda en harðlínuíhaldsmenn, enda flestir hinna óákveðnu kjósenda taldir tilheyra hinni svokölluðu loðnu miðju. Rétt eins og John Kerry og Demókratar ræddu fjögurra mánaða herþjónustu Kerrys í Víetnam í þaula, verður megináherslan hjá Repúblíkönum styrk stjórn Bush forseta á tímum hryðjuverkaárása og almenns ótta. Fréttaskýrendur bíða þó spenntir eftir því hvort að Bush hafi eitthvað nýtt fram að færa, eða hvort að hann lofi einungis fjórum árum af því sama - nokkuð sem ekki er endilega talið nægja til að sannfæra óákveðna kjósendur sem skipta öllu máli í þessum kosningum. Repúblíkanar eru þó bjartsýnir nú við upphaf ráðstefnunnar, enda sýna kannanir að hagur Bush hefur heldur vænkast á meðan Kerry er í vörn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×