Erlent

Eins og eftir sprengjuárás

Íbúar Flórída eru byrjaðir að hreinsa til í rústunum og byggja upp það sem eyðilagðist þegar hvirfilbylurinn Charley gekk þar yfir. Talið er að skemmdirnar megi meta á allt að 800 milljarða króna og er þá aðeins horft til þess sem íbúarnir voru búnir að tryggja áður en ósköpin gengu yfir. George W. Bush Bandaríkjaforseti kom til Flórída í gær til að kanna aðstæður. Hann flaug yfir svæðið í þyrlu ásamt bróður sínum, Jeb Bush ríkisstjóra í Flórída. "Þetta lítur út eins og eftir sprengjuárás. Allt er farið, allt rifið upp," sagði Chad Maxwell þar sem hann gekk um rústirnar sem áður voru fasteignasalan sem hann vann á. Séra Leroy Martin treysti kirkju sinni ekki nógu vel eftir hvirfilbylinn og setti upp stóla fyrir framan hana þar sem hann hélt messu. Hann óttaðist að ef hún yrði haldin innandyra kynni þakið að gefa sig eða hlutar hryndu úr loftinu á fólk sem kæmi til messu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×