Erlent

Edwards ber Kerry lofi

John Kerry tekur í dag formlega við útnefningu sem forsetaframbjóðandi demókrata á flokksþingi þeirra í Boston. Ræðan sem hann heldur í kvöld er líklega sú mikilvægasta á ferli hans. Það var mikil stemmning þegar að John Edwards steig í pontu á þinginu. Troðið var í öll sæti og ljóst að viðbrögðin yrðu sterk, hvað sem Edwards myndi segja. Ræða hans var fremur fyrirsjáanleg og efnisrýr, tönglast var á þeim lykilatriðum sem þeir Kerry og Edwards vilja byggja á, það er að Kerry sé stríðshetja sem verður sterkur leiðtogi og allir eigi að geta upplifað ameríska drauminn, komist þeir til valda. Ákveðinn og sterkur, eru lykilorðin sem notuð eru um Kerry og sýn þeirra Edwards á að vera jákvæð og bartsýn, þvert á það sem Edwards sagði vera þreytta, gamla og hatursfulla og neikvæða stefnu fortíðar. Þó að viðbrögðin hafi verið góð í höllinni kveikti Edwards ekki í mannfjöldanum og skilaboðin voru heldur loðin og draumórakennd. Á fundi í gær með helstu ráðgjöfum Kerrys í utanríkismálum sem haldinn var með nokkrum blaðamönnum og erlendum leiðtogum var sýnin ögn skýrari en þó ekki mikið. Lögð var gríðarmikil áhersla á að Kerry myndi bæta samskipti við bandamenn leita samvinnu og annarra lausna áður en til stríðsreksturs kæmi. Áhugavert var að ráðgjafarnir sögðu mikilvægt að draga úr áhrifum olíuríkja sem þeir sögðu hafa of mikil áhrif á sjálfstæði utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Í kvöld er svo komið að sjálfum Kerry að halda ræðu. Heimildarmenn innan raða ráðgjafa hans segja ekki að vænta stórtíðinda í kvöld í ávarpi hans en þess er þó beðið með eftirvæntingu hvort hann verður fullur af eldmóði eða jafn dauflegur og hann hefur verið hingað til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×