Erlent

Hjálparsveitir snúa aftur

Eftir nokkura daga hlé á hjálparstarfi hafa hjálparstofnanir aftur komið upp matarbirgðum í tveimur búðum fyrir súdanska flóttamenn í nágrannaríkinu Tsjad. Á svæðinu hafast fjörutíu þúsund súdanskir flóttamenn við eftir að leiðtogar búðanna hétu því að tryggja öryggi þeirra en hjálparstarfi þar var hætt í nokkra daga vegna ofbeldis. Oxfam-hjálparsamtökin ætla að senda flugvél með þrjátíu tonn af vatni og hreinlætisvörum til Darfur. Alls hafa rúmlega ein milljón manna flúið heimili sín í Darfur-héraði í Súdan í kjölfar átaka og ofbeldis þar en í síðasta mánuði slitnaði upp úr friðarviðræðum þegar leiðtogar uppreisnarmanna gengu út af fundinum. Leiðtogi þeirra hefur lýst því yfir að samtök hans muni ekki eiga viðræður við ríkisstjórn landsins fyrr en hún afvopni arabíska vígamenn sem grunaðir eru um manndráp í Darfur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×