Erlent

Framkvæmdi hugmynd Hitler

Einræðisherrann Adolf Hitler gældi við það tæpum 60 árum áður en það raunverulega gerðist að láta flugvélar hlaðnar sprengiefnum fljúga á skýjakljúfa í New York. Voru hugmyndir hans það langt komnar að búið var að þjálfa flugmenn og teikna flugvélarnar, sem hlutu nafnið Amerikabomber. Reyndi Hitler mikið að hefja framleiðslu vélanna við lok stríðsins þegar fyrirséð var að þýski herinn væri á undanhaldi á flestum vígstöðvum en gafst ekki nægilegt tóm til. Albert Speer, æðsti yfirmaður hergagnaframleiðslu Þjóðverja, minntist þess í dagbók sinni árið 1947 hvernig Hitler umturnaðist þegar talið barst að árásum vélanna á New York. "Það var næstum eins og æði gripi hann þegar hann lýsti draumórum sínum um að sjá New York brenna til grunna. Hann ímyndaði sér hvernig skýjakljúfarnir myndu loga eins og kyndlar eftir árásirnar og hrynja svo til jarðar meðan eldarnir mynduðu ljóðræna birtu við dökkan himininn." Hugmyndin um Amerikabomber byggðist á að framleidd yrði risastór flutningavél með langt flugþol sem borið gæti aðra minni flugvél langleiðina yfir Atlantshafið. Í nánd við Bandaríkin yrði minni vélinni sleppt en samkvæmt teikningum sem fundist hafa þótti ekki ástæða til að hafa vopn né lendingarbúnað í þeim. Sú vél gæti flogið afar hratt svo næsta ómögulegt væri að skjóta hana niður af loftvarnabyssum eða árásarvélum. Flutningavélinni yrði snúið við til Þýskalands þar sem næsta sprengjuvél yrði fest við hana og átti þannig að vera hægt að senda vélar með reglulegu millibili yfir hafið. Teikningar af umræddum vélum hafa nýlega litið dagsins ljós eftir áratuga geymslu en prófessor við háskóla í Berlín fann þær og kom á framfæri við fjölmiðla. Þykir mörgum þetta staðfesting á þýsku hugviti en margt af því sem þýskir verkfræðingar uppgötvuðu í seinni heimsstyrjöldinni er enn þann dag í dag notað víða í iðnaði hvers konar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×