Innlent

Sjálfstæðu leikhúsin í sókn

Bandalag sjálfstæðra leikhúsa fær jafn marga gesti og Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Leikfélag Akureyrar, Íslenska óperan og Íslenski dansflokkurinn til samans. Ragnar Karlsson, sérfræðingur Hagstofunnar, segir áhorfendur sjálfstæðra leikhúsa hafa verið 168.810 á leikárinu 2002-2003 en 168.825 hafi sótt leiksýningar opinberu leikhúsanna á sama tíma. Ragnar segir þó jafnframt að inni í þeim tölum séu 37.399 sameiginlegir gestir beggja. Hann segir að Hagstofan vildi gjarnan skoða þetta á öðrum forsendum. "Annars vegar þar sem við erum með atvinnuleikhús sem setja upp fleiri en eina uppfærslu á ári og eru með fasta menn og aðstöðu til sýninganna. Hins vegar atvinnuleikhópanna. Þá erum við að tala um aðrar tölur," segir Ragnar. Aino Freyja Järvelä, nýr formaður félagsins, segir nauðsynlegt að hagsmuna sjálfstæðra leikhúsa sé gætt svo þau séu ekki alltaf hækjur á öðrum. Hún segir bandalagið ekki sátt við stöðu sjálfstæðra leikhúsa á markaði. "Við erum aðeins að fá smá brot af þeirri styrkupphæð sem hin leikhúsin eru að fá." Þrátt fyrir það er vöxturinn mikill og er bandalagið að ráða til sín framkvæmdastjóra. "Við erum að styrkja ímynd okkar út á við. Við erum ekki áhugaleikhópur heldur er þetta atvinnugrein með menntuðum leikhúslistamönnum," segir Aino Freyja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×