Innlent

Víða engin lágmarkskjörsókn

Ekki eru nein fordæmi fyrir því í nágrannaríkjum Íslands að krefjast 75 prósenta lágmarkskjörsóknar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Víða er engrar lágmarkskjörsóknar krafist.   Björn Bjarnason dómsmálaráðherra telur að í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin eigi að miða við að þrír fjórðu hutar kjósenda greiði atkvæði, til kosningin teljist gild. Slíkar kröfur yrðu strangari en á hinum Norðurlöndunum. Í öllum norrænu ríkjunum nema á Íslandi, eru til lög um þjóðaratkvæðagreiðslur, og eru þau inni í stjórnarskrá. Í Finnlandi og Noregi eru engin skilyrði um lágmarksþátttöku í kosninginnu. Kosningin er hinsvegar ekki bindandi - þó þingin hafi aldrei gengið á svig við niðurstöðuna. Í Svíþjóð eru heldur engin ákvæði um lágmarkskjörsókn, en lög verða þó aðeins felld í þjóðaratkvæðagreiðslu ef þeir sem segja nei, eru að minnsta kosti helmingur þeirra sem kusu í síðustu alþingiskosningum. Í danska sendiráðinu fengust þær upplýsingar að í þjóðaratkvæðagreiðslum gildi einfaldur meirihluti. Lögin sem atkvæði eru greidd um, verða hinsvegar ekki felld úr gildi - nema 30% þeirra sem eru á kjörskrá segi nei við þeim. Það þarf því í raun ákveðna lágmarksþáttöku til að hægt sé að fella lög úr gildi - að minnsta kosti 30% ef allir kjósendur greiddu atkvæði á á móti. Í Danmörku getur einn þriðji þingmanna krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög. Það hefur einu sinni gerst, og var það árið 1963, en málið snérist um kaup og sölu á jörðum. Lögunum var hafnað. Þá greiddu Danir árið 2000 atkvæði um Evruna. Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur við Háskóla Íslands og sérfræðingur í málefnum Evrópusambandsins, segir engin dæmi þess að sett hafi verið ákvæði um ákveðna lágmarksþátttökuprósentu í þjóðaratkvæðagreiðslum í Evrópu. Þegar Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram til forseta gegn Vigdísi Finnbogadóttur árið 1988 var kjörsókn 72,5%. Það er minnsta kjörsókn í almennum kosningum síðan árið 1933.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×