Erlent

Blair lofar þjóðaratkvæðagreiðslu

Að vera eða ekki að vera í Evrópusambandinu er spurning sem er til umræðu á Bretlandseyjum í kjölfar þess, að stjórnmálaflokkur sem vill ganga úr sambandinu bar sigur úr býtum í Evrópuþingskosningum um helgina. Fyrir viku síðan hefði enginn látið sér detta í hug að stórveldið Bretland myndi ganga úr Evrópusambandinu. En nú er það til umræðu, þó að flestir þungavigtarmenn bæði Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins séu því mótfallnir. Breskir sjálfstæðismenn segja Brüssel miðstöð ólýðræðislegs skrifræðisveldis, sem haldi bresku þjóðinni nánast í gíslingu. Miðað við gengi flokksins í Evrópuþingskosningum er nokkur fjöldi kjósenda sammála. Tony Blair er hins vegar ósammála, og færði fyrir því rök að hvika ekki frá Evrópustefnu sinni á þingi í dag. Hann ræddi einnig evrópska stjórnarskrá sem er að fæðast. Hann sagði mikilvægt að vera áfram í miðju ákvarðanatökunnar. Hann segir afstöðu þeirra sem vilja segja sig úr sambandinu vera kol ranga og stangist á við hagsmuni landsins. Blair hefur lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskránna, þar sem lokaafstaða Breta til hennar kemur væntanlega í ljós.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×