Sport

Á leið í Laugardal

Knattspyrnulið Vals mun ekki leika að Hlíðarenda næstu tvö árin. Miklar framkvæmdir eiga sér stað á Valssvæðinu þessa dagana sem gera það að verkum að ómögulegt verður að leika þar knattspyrnu. Þess í stað mun karlalið félagsins leika á Laugardalsvelli. Ekki er enn ljóst hvar kvennalið félagsins leikur en það verður ekki á þjóðarleikvanginum. "Það er fátt sem bendir til þess að við getum leikið á okkar heimavelli næsta sumar," sagði Sveinn Stefánsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Vals. "Framkvæmdir verða væntanlega hafnar í mars eða apríl. Það er engu að síður ljóst að við þurfum að spila tvö tímabil fjarri Hlíðarenda. Það þarf nefnilega að leggja nýjan grasvöll og því spilum við væntanlega ekki á Hlíðarenda næst fyrr en 2007." Sveinn segir að karlaliðið eigi að fá inni á Laugardalsvelli og munu því þrjú lið í Landsbankadeildinni leika heimaleiki sína þar næsta sumar; Valur, Fram og Þróttur. Íslandsmeistarar Vals í kvennaflokki eru aftur á móti enn "heimilislausir". Liðið mun ekki spila á Laugardalsvelli og enn á eftir að finna völl fyrir það. Sveinn sagðist hafa rætt við kollega sína hjá Víkingi varðandi stelpurnar en segir að undirtektirnar hafi verið dræmar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×