Erlent

Abbas kjörinn leiðtogi PLO

Mahmoud Abbas var í dag kjörinn leiðtogi Frelsissamtaka Palestínumanna, PLO. Abbas þykir hófsamur og samningalipur en óttast er að hann nái ekki sömu lýðhylli og Arafat og muni ekki hafa stjórn á öfgahópum Palestínumanna. Palestínumenn syrgðu Arafat í dag og þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í 40 daga. Á bak við tjöldin leggja menn hins vegar á ráðin um framtíðina. Embættisskyldum og störfum Arafats var í dag formlega skipt upp á milli nokkurra manna og þar ber hæst að Mahmoud Abbas, öðru nafni Abu Mazen, var kjörinn leiðtogi PLO og verður þar með lögmætur fulltrúi allra Palestínumanna og sér um samningaviðræður þeirra við Ísraelsstjórn. Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins Ísland-Palestína, segir að Ísraels- og Bandaríkjastjórn ætti ekki að kvarta yfir skipan Abbas því hann hafi verið óskakostur þeirra sem forsætisráðherra Palestínu á sínum tíma. Að sögn Sveins gjörþekkir Mazen ísraelsku stjórnmálamennina. „Á áttunda áratugnum fól Arafat honum að sjá um leynilegar viðræður við Ísraelsstjórn. Hann hefur oft verið kallaður höfundur friðargjörðarinnar og Óslóarsamkomulagsins,“ segir Sveinn. Það er þó talið harla ólíklegt að Abbasi takist að sameina alla Palestínumenn undir sinni stjórn og sérstaklega er óttast að hið sérstaka samband sem Arafat hafði við herskáar fylkingar rofni og ofbeldið fari úr böndunum. Stjórnarskrá Palestínumanna kveður á um að nú verði að boða til kosninga innan tveggja mánaða en þangað til mun forseti palestínska þingsins, Rauhi Fattouh, gegna forsetaembættinu en forsætisráðherra Palestínumanna, Ahmed Qurei, mun hins vegar taka við flestum daglegum embættisskyldum Arafats.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×