Innlent

Gegn þjónustuskerðingu Landspítala

"Ég er að athuga hvort við getum ekki stýrt málum án þess að lækka þjónustustig spítalans frekar en orðið er," sagði Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra um stöðu Landspítala - háskólasjúkrahúss í fjárlagagerð fyrir næsta ár. Spurður kvaðst hann ekki vilja tjá sig um hvort til þyrfti tilslakanir á þeim ramma sem stjórnvöld hefðu sett um rekstur LSH, en verið væri að fara í gegnum með hvaða hætti væri hægt að meðhöndla fjármál spítalans. "Það verður alltaf að hafa ýmiss konar aðhald í svo umfangsmiklum rekstri sem þetta er," sagði ráðherra. "Því hefur verið haldið fram að lækka þurfi þjónustustig spítalans frekar en orðið er. Ég hef viljað leita allra ráða til að þurfa ekki að fara þá leið." Spurður hvort hann væri beinlíns mótfallinn því að lækka þjónustustigið á LSH svaraði ráðherra: "Þess vegna hef ég verið að skoða það, að sjálfsögðu. En við erum með okkar markmið í ríkisfjármálum og ég er hluti af því dæmi." Stjórnvöld hafa gert Landspítala - háskólasjúkrahúsi að spara 700 milljónir á ári í tvö ár. "Menn hafa verið í aðgerðum þar í upphafi ársins, sem eru nú að skila sér og munu væntanlega skila sér á næsta ári." Spurður um niðurstöður Jónínunefndarinnar svokölluðu, sem er ráðherraskipuð, kvaðst ráðherra hafa átt von á áfangaskýrslu frá henni á vordögum. "En vorið líður hratt," sagði hann. Umrædd nefnd vinnur að því að marka spítalanum skýrari stöðu í heilbrigðisþjónustunni en verið hefur. Ráðherra sagði að ekki væri þar með sagt að það héngi allt á því nefndarstarfi, en hann hefði lagt áherslu á að því yrði flýtt. "Við vinnum að málefnum spítalans þótt nefndin sé í gangi," sagði hann. "En það er búið að leggja í þetta heilmikla vinnu og margir aðilar hafa lagt þarna saman krafta sína, þannig að það væri gott og gagnlegt fyrir mig að fá skýrslu frá nefndinni, þótt það skipti ekki sköpum um málefni dagsins."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×