Erlent

Netklámsbann brot á stjórnarskrá

Hæstiréttur Bandaríkjanna telur að lög sem eiga að vernda börn gegn klámi á Netinu brjóti líklega í bága við stjórnarskrárákvæði Bandaríkjanna um tjáningarfrelsi. Í annað skiptið sendi rétturinn málið aftur til undirréttar. Hæstiréttur féllst á rök undirréttar um að synja löggjöfinni en vísaði málinu aftur þangað og bað undirréttinn um að skoða hvort það væri tæknilega mögulegt að koma í veg fyrir að börn sjái klám á Netinu án þess að skerða tjáningarfrelsi fullorðinna. Úrskurður hæstaréttar þykir ákveðinn sigur fyrir hagsmunasamtök sem styðja tjáningarfrelsi. Hann hefur gefur aftur á móti dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna möguleika á því að reyna að sanna aftur að lögin brjóti ekki gegn stjórnarskránni. Lögin kveða á um að heimilt verði að refsa eigendum þeirra vefsíðna sem innihalda klámefni án þess að gera ráðstafanir sem koma í veg fyrir að börn geti nálgast slíkt efni. Samkvæmt lögunum yrði hægt að beita ríflega þriggja milljóna króna dagsekt fyrir brot á lögunum. Einnig gæti brot á þeim varðað allt að sex mánaða fangelsi. Lögin voru samþykkt í stjórnartíð Bill Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna en hafa verið velkjast í dómskerfinu allt síðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×