Erlent

Búist við hörðum viðbrögðum

Palestínskir vígamenn skutu fjölda heimatilbúinna sprengja að ísraelskum landamærabæ í gær. Skothríðin kostaði tvo Ísraela lífið, þriggja ára dreng og afa hans, auk þess sem sjö særðust. Sprengjurnar féllu aðeins nokkrum klukkutímum eftir að Hamas-samtökin, í samvinnu við önnur íslömsk vígasamtök, sprengdu upp ísraelska herstöð á Gaza. Sprengingin kostaði einn hermann lífið og særði fimm. Þá voru fjórir Palestínumenn skotnir til bana af Ísraelskum hersveitum á Gaza í fyrrinótt. Þetta er í fyrsta skipti í nær fjögurra ára átökum Ísraela og Palestínumanna sem sprengjur frá Gaza verða Ísraelum að bana. Búist var við hörðum viðbrögðum en Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, kallaði til neyðarfundar í öryggisráði þjóðarinnar í gær. Talið er að það sé merki um að hann muni falast eftir sérstöku samþykki fyrir hernaðaraðgerðum. Sharon sagðist þó ákveðinn í því að halda áfram með fyrirhugað brotthvarf frá Gaza. Þá ætti að flýta brottflutningi ísraelskra landnema þaðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×