Erlent

Eftirliti í Íran ekki lokið

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur ekki enn fundið örugg merki þess að Íranar búi yfir kjarnavopnum eða séu að undirbúa smíð þeirra. Stofnunin fundar nú um málefni Írana. Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í Evrópu hafa sett þau skilyrði að Alþjóðakjarnorkumálastofnunin ljúki eftirliti sínu fyrir 1. nóvember en stofnunin telur ekki víst að hægt verði að tryggja að það verði hægt. Íranir framleiða auðgað úraníum, sem þeir segja að sé til orkuframleiðslu en það er jafnframt eitt helsta byggingarefni til kjarnavopna, ásamt plútóníum. Fulltrúar Bandaríkjastjórnar í stofnuninni vilja að skilyrði til eftirlits með kjarnavopnaframleiðslu í Íran verði hert en ekki er einhugur um það í stofnuninni. Þeir vilja krefjast skilyrðislauss og tafarlauss aðgangs að öllum svæðum og upplýsingum sem stofnunin setti skilyrði um fyrir tveimur árum. Þeir fara einnig fram á tæmandi lista yfir öll efni sem nota má til gerðar kjarnavopna og til eru í landinu auk allrar þekkingar sem nýst getur til smíðinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×