Erlent

Óvissa hjá Yukos

Talsmaður olíufélagsins Yukos neitar sögusögnum um að rússnesk yfirvöld hafi í gær fjarlægt mikilvæg forrit úr höfuðstöðvum fyrirtækisins. Hann segir lögreglumenn hins vegar hafa haft á brott með sér persónulega muni starfsmanna og ýmis gögn. Forritið sem talið var að lögreglumenn hefðu haft á brott með sér í gær er nauðsynlegt til vinnslu hráolíu. Alexander Shadrin, talsmaður Yukos, segir olíuvinnslu Yukos hins vegar í fullum gangi og að forritið mikilvæga sé enn á sínum stað. Upphaflega var talið að aðgerðir lögreglu í gær væru tilkomnar vegna 3,4 milljarða dala skattskulda Yukos frá árinu 2000. Í yfirlýsingu frá ákæruvaldi Rússlands í dag er ástæða aðgerðanna hins vegar sögð vera svindl, skattsvik og aðrir glæpir fyrirtækja í eigu Yukos. Lögregla yfirgaf höfuðstöðvar Yukos rétt fyrir ellefu að rússneskum tíma í gær en mikil óvissa ríkir um framtíð fyrirtækisins og rúmlega 100 þúsund starfsmanna þess.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×