Erlent

Graðir kommar

Háttsettur kínverskur embættismaður á yfir höfði sér harða refsingu eftir að 11 hjákonur hans fordæmdu hann fyrir spillingu. Hjákonurnar gerðu þetta í hefndarskyni eftir að eiginmenn nokkurra þeirra höfðu verið teknir af lífi fyrir spillingu. Pang Jæjú sem er 63 ára gamall hafði keypt ungar og fallegar konurnar til fylgilags við sig með því að útvega þeim eða eiginmönnum þeirra feit embætti.

Erlent

Móðir Madeleine yfirheyrð

Lögregla í Portúgal yfirheyrði Kate, móður Madeleine Mccann, í meira en ellefu tíma í gær. Madeleine hefur verið saknað frá því hún hvarf frá hótelherbergi sínu í maí. Móðirin var kölluð til yfirheyrslu vegna nýrra sönnunargagna sem komu fram í málinu. Hún hefur verið yfirheyrð áður, en í þetta var í fyrsta sinn sem lögfræðingur hennar er viðstaddur. Lögreglan hefur sagt að foreldrar Madeleine séu ekki grunuð um að hafa átt þátt í hvarfi hennar.

Erlent

Boða nýtt myndband með Osama bin Laden

Nýtt myndband af Osama bin Laden, leiðtoga Al-Kaída samtakanna, verður brátt sent til fjölmiðla samkvæmt íslamskri vefsíðu. Myndbandið var gert í tilefni af sex ára afmæli árásanna á tvíburaturnana í New York 11. september næstkomandi. Á vefsíðunni má sjá nýja ljósmynd af Osama bin Laden sem tekin er úr myndbandinu.

Erlent

Fjórtán láta lífið í sjálfsmorðsárás í Alsír

Fjórtán manns létu lífið og að minnsta kosti 60 særðust í sjálfsmorðsárás í bænum Batna í Alsír í dag. Sprengjan sprakk skömmu áður Abdelaziz Bouteflika, forseti Alsír, kom í boðaða heimsókn til bæjarins. Talið er að herskáir múslimar hafi staðið á bak við árásinni.

Erlent

Steve Fossett enn leitað

Enn hefur ekkert spurst til ævintýramannsins og methafans Steve Fossett en hans hefur nú verið saknað í fjóra daga. Björgunarsveitarmenn leita nú að Fossett úr lofti og á landi en án árangurs. Í dag var ákveðið að stækka leitarsvæðið.

Erlent

Kallað hermenn heim en ekki gæsluliða

Nærri tuttugu þjóðir hafa kallað herlið sitt heim frá Írak frá innrásinni 2003. Fulltrúar sumra ríkjanna starfa þó enn þar á vegum Sameinuðu þjóðanna eða Atlantshafsbandalagsins þrátt fyrir heimkvaðningu hermanna.

Erlent

Rhys Jones borinn til grafar í dag

Rhys Jones, ellefu ára drengur sem lést fyrir byssukúlu skotmanns í Liverpool í Bretlandi, var borinn til grafar í dag. Meðal þeirra sem voru viðstaddir útförina í dómkirkjunni í Liverpool voru félagar hans úr fótboltanum.

Erlent

Árás hrundið í Ísrael

Sex palestinskir vígamenn voru felldir þegar þeir reyndu að gera árás á ísraelska varðstöð við Gaza ströndina í dag. Ísraelar beittu orrustuþyrlu til þess að hrinda árásinn. Palestínumennirnir tilheyrðu samtökunum Islamic Jihad.

Erlent

Víkingar sóttir í hauga í Noregi

Norskir fornleifafræðingar eru nú að sækja jarðneskar leifar þriggja víkinga í hauga þar semþær voru skildar eftir þegar skip voru grafin úr haugunum á fyrrihluta síðustu aldar. Annað var hið fræga Gauksstaðaskip en hitt var sótt í haug í Oseberg.

Erlent

Gabb í Kaupmannahöfn

Hryðjuverkaútkall lögreglunnar í Kaupmannahöfn eftir hádegi, reyndist vera gabb. Tilkynnt var um sprengiefni og hugsanleg efnavopn. Lögreglan tól kallið alvarlega, girti af hverfið og flutti fólk á brott. Nú er verið að reyna að finna þá sem göbbuðu hana og eiga þeir ekki von á góðu ef þeir nást.

Erlent

Kaupmannahafnarlögreglan í hryðjuverkaútkalli

Danska lögreglan hefur lokað hverfi í norðvesturhluta Kaupmannahafnar. Lögreglan hafði fengið tilkynningu um að þar sé sprengiefni og efnavopn. Íbúar í nærliggjandi húsum hafa verið fluttir á brott. Talsmaður lögreglunnar segir í samtali við Extra Bladet að miðað við það sem á undan sé gengið, sé engin áhætta tekin þegar svona tilkynningar berist. Því hafi fólki verið forðað. Verið er að leita í húsi við Næturgalaveg 75.

Erlent

Tilraunir til hryðjuverka sýna mikilvægi herliðs í Afganistan

Háttsettur Bandarískur diplómat segir að sprengjuárásirnar sem þýskum yfirvöldum tókst að koma í veg fyrir í gær sýni mikilvægi þess að þjóðverjar og aðrar Natoþjóðir hafi herlið sitt áfram í Afganistan. Richard Boucher, aðstoðar utanríkisráðherra Bandaríkjanna yfir suður- og mið-Asíu, hvatti í viðtali við Reuters þýsk stórnvöld til að halda herliði sínu í í landinu og sagði þetta veru eina leiðina til að stöðva straum hryðjuverkamanna frá svæðinu.

Erlent

Rússnesku sprengjuvélarnar nálgast Ísland

Breskar orrustuþotur hafa tekið við af norskum við að fylgjast með átta rússneskum sprengjuflugvélum sem eru á flugi yfir Norður-Atlantshafi. Ef að líkum lætur munu rússnesku vélarnar svo taka stefnuna á Ísland, og hér eru náttúrlega engar vélar til þess að senda á móti þeim.

Erlent

Spáð handtöku vegna hvarfs Madeleine McCann

Breska Sky fréttastofan segir að mikilvæg DNA sýni hafi fundist í íbúðinni sem foreldrar Madeleina McCann bjuggu í ásamt börnum sínum, þegar telpan hvarf. Daily Mirror heldur því fram að sýnin muni leiða til handtöku innan tveggja sólarhringa. Sýnin voru skoðuð í rannsóknarstofu bresku lögreglunnar.

Erlent

Norskar orrustuþotur á móti Rússum

Norðmenn sendu í morgun tvær orrustuþotur á móti rússneskum sprengjuflugvélum sem nálguðust norska lofthelgi. Ofursti í norska flughernum segir að þeir fylgist náið með öllum ferðum Rússa og búist við tíðum heimsóknum þeirra á næstu árum.

Erlent

Rússar sagðir tilbúnir að afhenda Írönum kjarnorkueldsneyti

Rússar og Íranar hafa náð samkomulagi um afhendingu á eldsneyti fyrir fyrsta kjarnorkuver Írana, að sögn ríkisútvarpsins í Teheran. Afhending eldsneytisins hefur tafist verulega. Rússar segja að það sé vegna þess að Íranar hafi ekki innt af hendi umsamdar greiðslur. Íranar segja hinsvegar að það sé vegna þess að Rússar séu undir miklum þrýstingi frá Vesturlöndum um að hætta við afhendinguna.

Erlent

Tíu leitað venga hryðjuverkamáls í Þýskalandi

Þýsk yfirvöld leita nú tíu manna sem þau telja hafa aðstoðað mennina þrjá sem voru handteknir í gær grunaðir um að skipuleggja hryðjuverkaárásir í Þýskalandi. Fólkið er talið vera meðlimir í þýskri deild hryðjuverkasamtakanna islamskt Jihad. Aðstoðarinnanríkisráðherra Þýskalands, August Hanning, sagði í sjónvarpsviðtali í morgun að ekki stafaði lengur ógn af þessum tiltekna hópi. Þó væri ekki loku fyrir það skotið að fleiri hyggðu á árásir.

Erlent

Thompson tilkynnir framboð

Leikarinn og fyrrverandi öldungardeildarþingmaðurinn Fred Thompsons hefur tilkynnt að hann hyggist sækjast eftir tilnefningu sem forsetaframbjóðandi Repúblíkanaflokksins árið 2008.

Erlent

Sjö handteknir vegna hrottalegrar árásar í Danmörku

Lögregla í Danmörku handtók í nótt sjö manns sem hún grunar að hafi ráðist á þrjátíu og fimm ára gamla konu á Jótlandi í gær. Konan fannst í gær nærri dauða en lífi við vegarkant við bæinn Roslev á Jótlandi. Hún var flutt á nærliggjandi sjúkrahús þar sem henni er haldið lifandi í öndunarvél. Málið hefur vakið óhug í Danmörku. Konan var nakin en föt hennar fundust skammt frá staðnum þar sem hún lá. Konan var illa farin og telur lögreglan allt benda til þess að hún hafi orðið fyrir hrottalegu ofbeldi.

Erlent

Fossetts enn leitað

Ævintýramannsins og auðkýfingsins Steves Fossetts er enn leitað, en ekkert hefur spurst til hans frá því á mánudaginn þegar hann tók loft í eins hreyfils vél sinni frá flugvelli í Nevada. Ekkert neyðarkall hefur borist frá vélinni, en Fossett var ekki í fjarskiptasambandi á meðan hann var á lofti og ekki með fyrirliggjandi flugáætlun. Steve Fosset varð heimsfrægur þegar hann varð fyrstu manna til að fara hringinn í kringum jörðina í loftbelg árið 2002. Hann er 63 ára gamall og hefur sett 115 heimsmet í ferðalögum á loftbelgjum, flugvélum og seglbátum svo fátt eitt sé nefnt.

Erlent

Craig hættir hugsanlega við afsögn

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Larry Craig segist hugsanlega ætla að hætta við afsögn sína. Craig sagði af sér eftir að hann var hantekinn fyrir að hafa falast eftir kynmökum við óeinkennisklæddan lögreglumann á flugvelli. Þingmaðurinn segist ekkert rangt hafa gert og þvertekur fyrir það að vera samkynhneigður. Hann hefur á ferli sínum barist hatrammlega gegn auknum réttindum samkynhneigðra.

Erlent

Pavarotti er látinn

Ítalski stórsöngvarinn Luciano Pavarotti lést nú í morgunsárið á heimili sínu í Modena á Ítalíu, umkringdur fjölskyldu og vinum

Erlent

Fannst nakin og illa farin við vegarkant

Lögreglan í Danmörku fann í dag um fertuga konu nærri dauða en lífi við vegarkant við bæinn Roslev á Jótlandi. Konan var flutt á nærliggjandi sjúkrahús þar sem henni er haldið lifandi í öndunarvél. Allt bendir til þess að hún hafi verið beitt hrottalegu ofbeldi.

Erlent

Tugir manna láta lífið í hitabylgju í Kaliforníu

Að minnsta kosti 25 hafa látið lífið í mikilli hitabylgju sem hefur gengið yfir suðurhluta Kaliforníu í Bandaríkjunum síðustu daga. Hiti fór í fyrsta skipti í dag niður fyrir 40 gráður í Los Angeles og mælist nú 38 gráður. Rafmagnslaust varð á stórum svæðum í kjölfar hitabylgjunnar vegna mikillar rafmagnsnotkunar.

Erlent

Flytja allt plútóníum á einn stað

Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að flytja allar birgðir af geislavirku plútóníum sem nota má í kjarnorkuvopn til Savannah River í Suður-Karólínu fylki. Er þetta gert til að einfalda öryggisgæslu, draga úr kostnaði og koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir. Alls verða um þrjú þúsund gámar af plútóníum fluttir á hið nýja öryggissvæðið.

Erlent

Um 200 manns enn saknað í Níkaragva

Að minnsta kosti 21 lét lífið þegar fellibylurinn Felix gekk yfir austurströnd Níkaragva í Mið-Ameríku í gær samkvæmt þarlendum yfirvöldum. Um 200 manns er enn saknað en þúsundir heimila eyðilögðust af völdum fellibylsins.

Erlent