Innlent

Algjör eyðilegging á Selfossi

„Við höfum það helvíti skítt. Það er allt ónýtt og við erum bara að moka út ruslinu,“ sagði Árni Steinarsson, annar eiganda 800 Bars á Selfossi, í gærkvöld.

Veitingastaðurinn brann til kaldra kola í gær þegar eldur kom upp í röraverksmiðjunni Seti upp úr hádegi. Bálið var fljótt að breiðast yfir í samliggjandi húsnæði 800 Bars, en eldveggur er á milli húsanna sem vonast var til að héldi, en hann gaf sig að lokum. Eldurinn fór þá inn í loftræstirör og á nokkrum mínútum var þakið orðið alelda. Slökkvilið frá Selfossi, Hveragerði, Þorlákshöfn og Reykjavík var kallað út og tóku um sextíu manns þátt í slökkvistarfinu.

Svo mikill varð eldurinn um tíma að lögreglan á Selfossi sendi þau tilmæli til íbúa að hafa glugga á húsum sínum lokaða ef ske kynni að reyk frá brunastað myndi leggja yfir hverfin. Þá var lokað fyrir hluta af neysluvatnsveitu Árborgar um tíma til að viðhalda vatnsþrýstingi á vettvangi.

Ekki náðist að bjarga neinu út úr húsnæði 800 Bar öðru en smávægilegu magni af áfengisflöskum sem var borið út áður en það varð eldinum að bráð. Eigendurnir hafa ekki tekið ákvörðun um framhaldið, en staðurinn er tryggður fyrir brunatjóni. „Við vitum ekki hvað verður. Það verður engin ákvörðun tekin um það núna,“ segir Árni. Talið er að tjónið hlaupi á hundruðum milljónum króna.

Bergsteinn Einarsson, framkvæmdastjóri röraverksmiðjunnar Set, segir brunann raska starfsemi verksmiðjunnar sáralítið. Geymsluhúsnæðið hafi verið það eina sem brann, en komið var í veg fyrir að eldurinn læsti sig í sjálfa röraverksmiðjuna. Að sögn Bergsteins er lagerbyggingin notuð í lítið annað en geymslu en vissulega hafi orðið töluvert tjón þar sem allt sem inni í henni var brann til kaldra kola. Hann telur það hlaupa á tugum milljóna.

„En þetta er mikið tjón fyrir 800 bar sem missti allt sitt,“ segir Bergsteinn. „Þeir standa uppi með miklu meiri röskun á sinni starfsemi en við.“

Talið er að kviknað hafi í út frá rafmagni, en starfsmenn Sets urðu varir við rafmagnstruflanir í mötuneyti verksmiðjunnar um hádegi. Eldurinn var búinn að breiðast mikið út þegar fólkið sneri aftur til vinnu fyrir klukkan eitt. Slökkvistarfi var að mestu lokið upp úr klukkan sex í gærkvöld.sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×