Fleiri fréttir

NATO banar níu almennum borgurum í Afganistan

Níu almennir borgarar í norðurhluta Afganistan létu lífið í loftárásum NATO í dag. NATO gerði þá árásir fyrir mistök á íbúðarhúsnæði en þeir töldu að þar hefðu verið hryðjuverkamenn á ferð.

Flestum meintum hryðjuverkamönnum sleppt

Meirihluti þeirra sem hafa verið handteknir samkvæmt hryðjuverkalögum, í Bretlandi, síðan árásin var gerð á bandaríkin 11. september 2001, hefur verið látinn laus án ákæru. Samkvæmt tölum frá innanríkisráðuneytinu, sem birtar voru í dag, voru 1.126 handteknir frá árásinni til loka síðasta árs. Fjörutíu til viðbótar sátu í varðhaldi vegna aðgerða lögreglu gegn hryðjuverkum. Af þessum var 652 sleppt án ákæru.

Megrunarpilla gefin frjáls

Megrunarlyfið Alli hefur verið leyst undan lyfseðilsskyldu í Bandaríkjunum, og verður í sumar hægt að fá það í hvaða verslun sem er. Það var Bandaríska lyfjastofnunin sem ákvað að gefa lyfið frjálst. Lyfið nýtur mikilla vinsælda þar vestra.

Frakkar senda liðsauka til Mið-Afríku

Frakkar hafa sent liðsauka frá Gabon til Mið-Afríku lýðveldisins, eftir að hermenn þeirra þar lentu í átökum við uppreisnarmenn um helgina. Um eitthundrað hermenn voru sendir úr liði sem Frakkar hafa í Gabon. Uppreisnarmennirnir vilja steypa Francois Bozize, forseta af stóli.

Danir vilja grafa 9000 km af raflínum í jörðu

Mikil samstaða er um það hjá stjórnmálaflokkum í Danmörku að grafa 9000 kílómetra af raflínum í jörðu, aðallega til þess að losna við risastór möstur og línur sem eru lýti á umhverfinu. Að sögn Jótlandspóstsins er meirihluti fyrir því á þingi að grafa línurnar.

Skordýraeitur ógnar regnskógum Kosta Ríka

Skordýraeitur ógnar nú mjög vernduðum regnskógum í Kosta Ríka, jafnvel þó að því sé dreift í margra kílómetra fjarlægð frá skógarjaðrinum. Þetta er vegna þess að eitrið leysist upp í rigningarvatni, gufar upp og fellur svo strax aftur sem regn í skógunum. Þetta kemur fram í tímaritinu Enviromental Science & Technology. Meðal afleiðinga þessa er að froskar og skriðdýrategundir í útrýmingarhættu drepast úr eitrinu.

Rauðglóandi Visakort

Sænskri móður brá í brún þegar hún fékk Visa reikninginn sinn þar sem fram kom að hún hefði keypt fyrir rífar 260 þúsund krónur í vefversluninni Playahead. Það kom enda á daginn að það var þrettán ára dóttir hennar sem hafði gerst svona umsvifamikil í viðskiptum og keypt bæði fyrir sjálfa sig og fjörutíu félaga sína.

Dæmdir fyrir pyntingar á Serbum

Hæstiréttur Króatíu hefur staðfest fangelsisdóma yfir átta fyrrverandi herlögreglumönnum fyrir að pynta og myrða serbneska fanga í stríðinu árið 1992. Fórnarlömb þeirra voru bæði serbneskir hermenn og almennir borgarar. Mennirnir fengu sex til átta ára fangelsisdóma.

Skattmann stekkur á Alexöndru

Þegar Alexandra prinsessa sagði já við kærastann sinn klukkan fjögur á föstudag, urðu umtalsverðar breytingar á hennar högum. Hún er nú ekki lengur prinsessa heldur aðeins greifynja, og danski skattmann mun hér eftir hirða drjúgan skerf af tekjum hennar.

Einstakar myndir af Satúrnusi

Geimfarið Cassini hefur sent til jarðar einstakar myndir af hringum Satúrnusar. Myndirnar eru teknar í um milljón kílómetra fjarlægð. Á myndunum má meðal annars sjá fylgitunglin Dione og Enceladus, sem hanga eins og örlitlir hvítir dílar út við sjóndeildarhringinn. Enceladus

Kæfa mótmæli í fæðingu

Nokkur ungmenni hafa verið handtekin nærri Ungdomshuset í morgun við það að reyna að stöðva niðurrif hússins. Einhverjir lögðust fyrir flutningabíla sem fjarlægja steypubrot frá húsinu. Jagtvej, gatan sem Ungdomshuset stendur við er lokuð og hefur lögregla það að markmiði að kæfa öll mótmæli í fæðingu.

Ung sænsk kona fær Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Sænski rithöfundurinn Sara Stridsberg hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár. Sara, sem er 33 ára, fær verðlaunin fyrir skáldsöguna Draumadeildina, sem var gefin út í fyrra. Soffía Auður Birgisdóttir, formaður dómnefndar bókmenntaverðlaunanna tilkynnti niðurstöðuna í Norræna húsinu í morgun.

Al-Kaída hótar að myrða Harry

Hryðjuverkasamtökin Al-Kaída hafa hótað því að ræna Harry bretaprins, þegar hann verður sendur til Íraks, í maí næstkomandi, að sögn breska blaðsins The Sun. Blaðið segir að hótunin hafi komið fram á vefsíðu sem róttækir múslimar halda úti. "Múslimar í Írak munu drepa Harry prins, megi Allah gefa honum það sem hann á skilið," segir meðal annars á vefsíðunni.

Reyna að finna Ungdomshuset nýjan stað

Styrktarsjóður Ungdomshuset hefur fjárráð til að kaupa nýtt hús fyrir þá starfsemi sem fram hefur farið á Jagtvej 69, í húsinu sem nú á samkvæmt heimildum Politiken að rífa. Þetta segir Knud Foldschack lögmaður styrktarsjóðsins. Lögmaðurinn áréttar hins vegar í samtali við Politiken að ungmennin sjálf hafi fyrirgert rétti sínum til að koma að þeirri ákvörðun hvar skuli kaupa nýtt hús, það sé sjóðsins og stjórnmálamanna að ákveða það. Hann segir að sjóðurinn sé hins vegar tilbúinn að láta unga fólkinu eftir að reka starfsemina eftir sem áður.

Stórt vopnabúr í Kaliforníu

Slökkviliðsmenn í Kaliforníu í Bandaríkjunum komu niður á milljón skothylki í göngum á einkalóð fyrir helgi. Eldur brenndi hluta þaks af húsinu fyrir ofan og var slökkvilið kallað til. Einhver skotfæri sprungu meðan eldur logaði í húsinu og hitnaði í göngunum. Þar voru, auk skotfæranna, rúm 30 kíló af svörtu byssupúðri, fjölmargar skammbyssur, haglabyssur og árásarrifflar.

Morðingi í leyfi drap aftur

Norskur karlmaður, Quang Minh Pham hefur verið handtekinn grunaður um að hafa myrt 31 árs gamlan mann sem saknað hafði verið í viku en fannst í skottinu á bíl Pham í gær. Pham, sem er 34 ára var dæmdur fyrir manndráp fyrir átta árum en var í leyfi frá fangelsinu þar sem hann afplánar 21 árs dóm. Verdens Gang í Noregi greinir frá þessu.

Arababandalagið vill skýr svör

Arababandalagið vill að Bandaríkjamenn gefi afsvar með það hversu lengi þeir ætla að hafa herafla í Írak. Aðalritari bandarlagsins Amr Moussa segir þetta helsta baráttumál bandalagsins sem nú fundar í Kaíró.

Enn nóg pláss í fangelsum

Fangelsismálastjóri Kaupmannahafnar óttast ekki plássleysi í fangelsum, jafnvel þó svo að til frekari átaka komi á Norðurbrú. Hann segir að enn sé pláss fyrir fleiri. Af þeim rúmlega 600 sem samtals hafa verið handteknir undanfarna sólarhringa sitja 218 enn í gæsluvarðhaldi.

Skutu átta óbreytta borgara til bana

Bandarískir hermenn skutu átta óbreytta borgara til bana og særðu meira en 30 til viðbótar fyrir utan Jalalabad í austurhluta Afganistan í dag. Þetta segir lögregla í Afganistan. Hermennirnir hófu skothríð eftir að sjálfsmorðssprengjumaður gerði á þá árás. Sprengjumaðurinn var sá eini sem lést í sprengingunni en ekki er ljóst hvort hermenn hafi slasast í henni. Ekki hafa enn borist fréttir af því af hverju hermennirnir hófu skothríð á borgarana.

Friður á Fílabeinsströndinni

Laurent Gbagbo forseti Fílabeinsstrandarinnar og Guillaume Soro foringi skæruliðasveita í landinu skrifuðu í dag undir friðarsamkomulag sem bindur enda á borgarastríð sem staðið hefur í fimm ár í landinu. Samningurinn er árangur mánaðrlangra viðræðna sem fram hafa farið í nágrannalandinu Burkina Faso með stuðningi Sameinuðu þjóðanna.

Þingkosningar í Eistlandi

Búist er við að sitjandi ríkisstjórn mið- og hægriflokkar í Eistlandi haldi velli í þingkosningum í landinu í dag. Kosningarnar eru þær elleftu frá því landið fékk sjálfstæði árið 1991. Kjörstaðir voru opnaðir klukkan sjö í morgun að íslenskum tíma og verður lokað klukkan sex. Búist er við að úrslit liggi fyrir klukkan tíu í kvöld.

Risabarn fæddist í Kína

Kínversk kona ól á föstudag barn sem er það þyngsta sem komið hefur í heiminn í þessu fjölmennasta landi heims síðan 1949. Drengurinn sem enn hefur ekki fengið nafn fæddist 6,25 kíló eða 25 merkur. Móður og barni heilsast vel. Móðirin er strætóbílstjóri og gamall íþróttamaður og er engin smásmíð sjálf, hún vegur 120 kíló.

Ungdomshuset verður jafnað við jörðu

Danska blaðið Politiken fullyrðir að Ungdomshuset verði jafnað við jörðu á tveimur dögum. Trúarsöfnuðurinn Faderhuset sem á húsið hefur boðað blaðamannafund í fyrramálið þar sem þeir ætla að greina frá ákvörðun sinni um framtíð hússins.

Enn allt með kyrrum kjörum í Kaupmannahöfn

Enn er allt með kyrrum kjörum á Norðurbrú í Kaupmannahöfn og svo virðist sem ekki muni koma til álíka átaka og undanfarna tvo daga. Mótmælendur komu sínum skilaboðum á framfæri með yfirveguðum hætti í dag en mótmælagöngu lauk í Norrebroparken undir kvöld án þess að til ryskinga kæmi. Lögregla hefur þó enn hámarksviðbúnað, skyldi sverfa til stáls.

Týndir ferðamenn komnir í leitirnar

Hópur ferðamanna sem hefur verið týndur síðan á fimmtudag í Eþíópíu er kominn í leitirnar. Hópurinn hafði samband við ferðaskrifstofu sína nú í kvöld. Búist er við því að hópurinn komi til höfuðborgarinnar Addis Ababa á morgun. Ekki er vitað enn hvað fólkið hefur verið að bardúsa en óttast var að uppreisnarmenn frá Erítreu hefðu rænt þeim.

Friðsamleg mótmæli í dag

Mótmæli hafa farið friðsamlega fram í Kaupmannahöfn í dag eftir hörð átök lögreglu og mótmælenda síðustu nótt. Deilt er um rýmingu æskulýðsstöðvar á Norðurbrú. Lögregla óttast að þar verði frekari átök í nótt. Íslenskur ljósmyndari segir mótmælendur hafa misst samúð hins venjulega Dana.

Bush heimsótti hvirfilbyljasvæði

George Bush Bandaríkjaforseti heimsótti í dag þau svæði sem verst urðu úti í hvirfilbyljum í fyrrinótt. Hann lofar þeim ríkjum sem verst urðu úti alríkisaðstoð. Bush kom meðal annars við í borginni Enterprise í Alabama þar sem fimm létust og tugir slösuðust þegar þak rifnaði af skólahúsi í hvirfilbyl.

Fimm breskum ferðamönnum rænt í Eþíópíu

Leit stendur yfir á fimm breskum sendiráðsstarfsmönnum sem saknað hefur verið síðan á fimmtudag þegar þeim var rænt í Eþíópíu um 800 km norðaustur af höfuðborginni Addis Ababa. Liðsmenn eþíópísku lögreglunnar og hersins vinna nú að því í samráði við breska sendinefnd að finna fólkið. Uppreisnarmönnum frá Erítreu er kennt um mannránið.

Mótmælin hafa verið friðsamleg í dag

Mótmæli í Kaupmannahöfn hafa gengið friðsamlega fyrir sig í dag. Um 2000 mótmælendur gengu fylktu liði frá Ráðhústorgi upp á Norðurbrú og sungu stuðningssöngva við Ungdomshuset.

Alexandra gekk í það heilaga í dag

Alexandra fyrrverandi prinsessa Dana og eiginkona Jóakims prins, giftist í dag ljósmyndaranum Martin Jørgensen í Öster Egede kirkjunni á suður Sjálandi. Prinsessan gekk inn kirkjugólfið ásamt sonum sínum og kom út klukkutíma síðar sem greifynja.

Maliki fordæmir morð á lögreglumönnum

Nouri Maliki forsætisráðherra Íraks heitir því að að elta uppi þá sem myrtu í gær 14 lögreglumenn í borginni Baquba, norður af Bagdad í gær. Þá hefur Maliki fordæmt morðin. Uppreisnarmennirnir sem myrtu lögreglumennina létu hafa það eftir sér áður en þeir hurfu á braut að þeir hefðu verið að hefna fyrir nauðgun á súnníakonu nýverið, sem lögreglumaður er sakaður um.

Mótmæli hafin á ný

Mótmæli eru hafin á ný eftir rólegan morgunn í Kaupmannahöfn. Fólk hefur hópast saman bæði á Vesturbrú og í Kristjánshöfn. Hóparnir stefna báðir niður á Ráðhústorg. Lögregla áætlar að um 1000 manns séu nú að mótmæla. Mótmælin hafa verið friðsamleg til þessa í dag en lögregla hefur handtekið nær 500 manns síðustu tvo daga vegna mótmælanna.

Lögreglan ræðst gegn óeirðaseggjum

Danska lögreglan hefur farið hús úr húsi í Kaupmannahöfn í morgun og handtekið grunaða óeirðaseggi. Vel á annað hundrað mótmælendur voru handteknir í óeirðum á Norðurbrú og í Kristjánshöfn í nótt. Til átaka kom þar aðra nóttina í röð. Mótmælendur boða aðgerðir víða í Kaupmannahöfn í dag.

Þrjú tonn af hassi

Holland er heimsþekkt fyrir væga löggjöf þegar kemur að hassreykingum - þar er auðvelt að kveikja sér í pípu án þess að lenda í vanda gagnvart yfirvöldum. Eðli málsins samkvæmt hefur það mikil áhrif á það magn sem neytt er í landinu. Í öllu falli hafa lögreglumenn í Hollandi nýverið lagt hald á þrjú tonn af hassi í lestarvagni á leið til Amsterdam.

Almyrkvi á tungli í kvöld

Ástæða er til að hvetja fólk til að horfa til himins í kvöld upp úr átta en þá hefst almyrkvi á tungli. Myrkvin verður algjör upp úr ellefu í kvöld. Myrkvun tunglsins er algjör í allri Evrópu, Afríku og Suður-Ameríku og eins í austurhluta Norður-Ameríku.

Mannskæðar aurskriður í Indónesíu

Minnst 20 létust í aurskriðum á eyjunni Flores í Indónesíu í gær. Margra er enn saknað eftir skriðurnar. Björgunarmenn reyna að grafa fólk úr skriðunum en hafa lent í vandræðum vegna þess að veður er enn mjög slæmt, rigning og rok.

Ráðherra landhersins segir af sér

Ráðherra bandaríska landhersins, Francis Harvey, hefur sagt af sér. Hann átti að sjá um að herinn gengi eins og smurð vél. Á meðal verka hans var að sjá um hermenn sem höfðu slasast í Írak eða Afganistan.

Tunglmyrkvi annað kvöld

Stjörnuáhugamenn bíða nú með óþreyju tunglmyrkvans sem á að vera á morgun. Hann á eftir að sjást best í Evrópu. Hann byrjar klukkan 18 mínútur yfir átta annað kvöld og verður tunglið alfarið í skugga jarðarinnar á milli 22:44 og 23:58 að íslenskum tíma. Hann mun sjást skýrt og greinilega á Íslandi, ef skýjafar leyfir.

Búa sig undir erfiða nótt

Lögreglan í Kaupmannahöfn býr sig nú undir erfiða nótt. Viðbúnaður er í hámarki þar sem fjölmenn mótmæli hófust klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma. Búist er við því að mesti óróleikinn verði mestur á Nörrebro. Lögregla hefur talsverðar áhyggjur af því að ástandið gæti orðið eins og það var í París árið 2005 en þá kveiktu ungmenni í borginni í bílum og gengu berserksgang um fjölmörg hverfi borgarinnar.

Nowak ákærð fyrir tilraun til mannráns

Lisa Nowak, geimfarinn sem keyrði yfir hálf Bandaríkin íklædd bleyju, til þess að geta náð sér niðri á konu sem hún taldi keppinaut sinn um ástir annars geimfara, hefur verið ákærð fyrir tilraun til mannráns.

Árekstur á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu

Árekstur varð á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu rétt í þessu. Sem stendur er ekki vitað hvort að það hafi verið slys á fólki en sjúkrabílar eru þó komnir á staðinn. Ekki er vitað hversu margir bílar lentu í árekstrinum. Við verðum með fleiri fregnir af þessu máli um leið og þær berast.

Sjá næstu 50 fréttir