Fleiri fréttir

Augusto Pinochet er allur

Augusto Pinochet, fyrrverandi einræðisherra í Chile, lést í dag, níutíu og eins árs að aldri. Pinochet hafði verið heilsutæpur um nokkurt skeið og fékk alvarlegt hjartaáfall fyrir viku. Hann var oddviti herforingjastjórnarinnar sem rændi völdum í Chile árið 1973 og ríkti í sautján ár. Á þeim tíma voru yfir þrjú þúsund manns myrtir eða látnir hverfa.

Hundruð þúsunda mótmæltu í Beirút

Mörg hundruð þúsund mótmælendur komu saman í Beirút, höfuðborga Líbanons, í dag og kröfðust afsagnar Sanioras, forsætisráðherra. Það voru Hizbollah-liðar og bandamenn Sýrlendinga sem fóru fyrir mótmælendum. Þetta eru ein fjölmennustu mótmæli sem efnt hefur verið til í Beirút og tíundi dagurinn í röð sem breytinga er krafist. Saniora hefur neitað að víkja fyrir Hizbollah-liðum sem hann telur vilja ræna völdunum.

Yunus tekur við friðarverðlaunum Nóbels

Bangladessbúinn Mohammad Yunus veitti friðarverðlaunum Nóbels viðtöku við hátíðlega athöfn í Osló í Noregi í dag. Yunus og Grameen smálána-bankinn sem hann stofnaði deila með sér verðlaununum í ár.

Tveir danskir hermenn særðust Í Írak

Tveir danskir hermenn úr skriðdrekasveit Dana eru særðir eftir átök norður af borginni Basra í Írak. Annar mannanna særðist á hálsi og var fyrst talinn alvarlega særður en hinn fékk skot í handlegginn. Hvorugur er í lífshættu, að sögn læknis dönsku herdeildarinnar, Sørens Dervings. Hermennirnir tveir eru á hersjúkrahúsi á herstöðinni Shaiba Log, þar sem dönsku bækistöðvarnar, Danevang, eru einnig staðsettar.

Vísar á rússnesk yfirvöld

Marina Litvinenko, eiginkona KGB njósnarans Alexanders Litvinenko, segir margt benda til þess að rússnesk yfirvöld beri ábyrgð á dauða hans. Eitrað var fyrir Litvinenko með geislavirka efninu polon 210 í síðasta mánuði.

Risatjald reist í heimalandi Borats

Forseti Kazakstan, Nursultan Nazarbayev, slær ekki slöku við í uppbyggingu hinnar nýju höfuðborgar landsins á steppunum norðan Baikalvatns. Hann hefur öðru sinni fengið hinn heimsfræga arkitekt Norman Foster, lávarð, til að hanna byggingu í borginni, í þetta skiptið risavaxið tjald, sem nær 150 m hæð, og þekur svæði á við 10 knattspyrnuvelli.

Óvænt heimsókn í 13. sinn

Donald Rumsfeld, fráfarandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, fór í óvænta heimsókn til Íraks í gær. Þetta var í 13. sinn sem hann heimsótti bandaríska hermenn þar.

Fyrsta næturgeimskot í 4 ár

Næturhiminn á Flórída í Bandaríkjunum lýstist upp í nótt þegar geimflauginni Discovery var skotið á loft frá Canaveral höfða. Þetta var í fyrsta sinn í fjögur ár sem geimflaug var skotið á loft að nóttu til.

Konungur Sáda segir Arabaheiminn suðupott sem gæti sprungið

Leiðtogar arabaríkja við Persaflóa funda í dag og á morgun á vegum leiðtogaráðs Persflóaríkja (GCC) í Riyadh höfuðborg Saudi Arabíu til að ræða sameiginlegt gjaldeyrisbandalag ríkjanna, sem fyrirhugað er að koma á laggirnar 2010. Vaxandi áhrif Írana á Persflóasvæðinu verða líka til umræðu. Abdullah, konungur Sádí Arabíu varaði við því í opnunarræðu, að arabaheimurinn væri eins og suðupottur sem lokið væri við það að springa af.

Starfsfólk reyndi ekki að bjarga konunum

Talið er að kveikt hafi verið í sjúkrahúsi í Moskvu, höfuðborg Rússlands, þar sem fjörtíu og fimm konur létust í nótt. Slökkvilið borgarinnar deilir á starfsfólk fyrir að reyna ekki að koma fólkinu út. Þetta er mannskæðasti bruni í borginni í þrjú ár. Eldurinn braust út á fíkniefnadeild spítalans snemma í morgun og dóu konurnar fjörtíu og fimm úr reykeitrun þar sem eina færa útgönguleiðin var við læst hlið spítalans.

Opinberir starfmenn skjóta mótmælaskotum á Gaza

2500 lögreglumenn í Palestínu þustu í dag inn í byggingu ríkisstjórnarinnar í miðborg Gaza, til að mótmæla því að fá ekki greidd laun. Þeir saka stjórnmálaarm Hamas um að greiða eigin öryggissveitum, en ekki laun hundrað sextíu og fimm þúsund opinberra starfsmanna.

Nýjar rannsóknir á dauða Díönu en sama niðurstaða

DNA rannsókn hefur leitt í ljós að Henri Paul, ökumaður Díönu prinsessu, var ölvaður hina örlagaríku nótt París 1997 þegar hann ók á steinstólpa og Díana lést. Þetta kemur fram í heimildarmynd BBC sjónvarpsstöðvarinnar. Mohamed al Fayed hefur samt barist fyrir opinberum vitnaleiðslum um málið sem fara fram í næsta mánuði.

Staða Palestínumanna verri en blökkumanna undir Apartheid

Stefna Ísraelsmanna í málefnum Palestínu býr Palestínumönnum verri aðbúnað en svartir bjuggu við á tímum aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku. Þetta sagði Jimmy Carter fyrrverandi Bandaríkjaforseti þegar hann svaraði spurningum um efni bókar sinnar um Palestínumálið.

Indverskir karlmenn með of stutt typpi

Rannsókn á rúmlega 1000 indverskum karlmönnum hefur leitt í ljós að alþjóðlegar staðalstærðir á smokkum eru fullrúmar fyrir indversk typpi. Samkvæmt niðurstöðum vísindamannanna er rúmur helmingur indversku mannanna með of stutta limi til að fylla upp í verjurnar. Þess vegna verður núna boðið upp á smokka í mismunandi stærðum á Indlandi.

Aldurstakmörk á fyrirsætur í Brasilíu

Skipuleggjendur tískuvikunnar í Sao Paulo, sem haldin verður í næsta mánuði, ætla að setja 16 ára aldurstakmark á fyrirsætur sem koma fram á tískusýningum, eftir að brasilísk fyrirsæta lést úr anorexíu í síðasta mánuði. Ríkisstjórn Brasilíu stendur nú fyrir átaki gegn átröskunarsjúkdómum.

Annar elsti karlmaður heims látinn

Moses Hardy, sem talinn var annar elsti maður heims, lést í dag, 113 ára að aldri. Hann var eini eftirlifandi svarti maðurinn sem barðist í fyrri heimsstyrjöldinni. Hardy var sjötti á lista heimsmetabókar Guinness yfir elsta fólk í heimi, sú sem er efst á þeim lista er 116 ára gömul.

Kynþokki Cortes vekur athygli í Bretlandi

Netblað í Liverpool fjallar í dag um Garðar Thor Cortes, sem kemur fram á tónleikum með Catherine Jenkins í LIverpool á sunnudagskvöld. Greinin byrjar á stuttri kynningu á landi og þjóð, 13 jólasveinum og nafnahefðina, og segir síðan frá einum besta óperusöngvara landsins sem einnig hafi verið útnefndur kynþokkafyllsti maður landsins í tvígang.

65 fangar sluppu nærri Cancun

Tugir fanga í mexíkósku fangelsi nærri ferðamannastaðnum Cancun brutu lása á klefadyrum sínum, börðu verði og sluppu út úr fangelsinu í dag. Tveir létust í slagnum. Hundruð fanga byrjuðu að mótmæla þegar nokkrir fanganna voru færðir í annað fangelsi, þeirra á meðal Marcos Gallegos, sem hefur verið kallaður "guðfaðirinn" í fangelsinu.

Siniora segir Hisbollah stefna á valdarán

Fouad Siniora, forsætisráðherra Líbanons, sakaði leiðtoga Hisbollah um að vilja ræna völdum af réttkjörinni ríkisstjórn í óvenju harðorðri ræðu í kvöld. Ræðan var send út frá skrifstofu hans, þar sem hann hefur hafst við í rúma viku, síðan stuðningsmenn Hisbollah lögðu undir sig göturnar fyrir utan stjórnarráðið í Beirút.

Rumsfeld ekki ábyrgur fyrir pyntingum

Bandarískur dómari sagðist í dag efast um að hægt væri að sækja Donald Rumsfeld til saka fyrir pyntingar bandarískra hermanna á föngum í Abu Ghraib fangelsinu í Írak. Thomas Hogan, dómari, sagði að þó að pyntingar væru óásættanlegar, þá væri ekki víst að níu írösk fórnarlömb þeirra gætu dregið varnarmálaráðherrann til ábyrgðar.

Quebecsk erfðagreining

Líkt og Íslendingar, eru íbúar Quebec-héraðs komnir af nokkrum fjölskyldum, sem fluttu frá Frakklandi til Quebec í Kanada. Erfðafræðingar telja að erfamengi Quebec-búa í Kanada geti af þessum ástæðum hentað vel til erfðarannsókna og hugsa sér gott til glóðarinnar að þróa lyf og læknismeðferðir út frá rannsóknum í Quebec.

Ætlaði að kúga auðjöfra

KGB maðurinn Alexander Litvinenko, sem myrtur var í síðasta mánuði, ætlaði að ljóstra upp um spillingarmál tengd valdamiklum auðjöfri sem mun tengjast ráðamönnum í Moskvu. Þetta fullyrti rússneskur doktorsnemi á blaðamannafundi í Lundúnum í dag.

Hlýtt í Evrópu

Vísindamenn segja ekki hafa verið hlýrra í Evrópu á þessum árstíma í fimm hundruð ár. Óttast er að skíðamenn fái lítið sem ekkert að renna sér í Ölpunum þennan veturinn og þurfi þess í stað að taka fram gönguskóna vilji þeir njóta náttúrunnar þar.

Írakar reyna við þjóðarsátt

Írakar munu halda þjóðarsáttarráðstefnu í næstu viku, nánar tiltekið þann 16. des. að því er fram kemur í fréttum sjónvarpsstöðvar á vegum íraska ríkisins í kvöld. Forsætisráðherrann Nuri al-Maliki tilkynnti á þriðjudag að leiðtogar helstu stjórnmálaafla Íraks muni hittast um miðjan desember án þess að tilgreina nánari tímasetningu.

Írar banna tóbakssælgæti og smápakka af sígarettum

Írar ætla að banna sölu á sígarettupökkum með færri en 20 sígarettum í maílok á næsta ári til þess að reyna að draga úr reykingum barna og unglinga. Yngstu reykingamennirnir sækja í minni sígarettupakkningar þar sem þær eru ódýrari, að sögn heilbrigðisráðuneytisins. Þá verður sælgæti sem líkist tóbaksvörum einnig bannað.

Kæra flugmenn vegna þotuslyss

Tveir bandarískir flugmenn voru í dag ákærðir fyrir að stofna flugöryggi í hættu þegar brasilísk Boeing-þota hrapaði í Amazon-frumskóginum þann 29. september. Mennirnir tveir flugu lítilli einkaþotu sem rakst á væng farþegaþotunnar með þeim afleiðingum að stærri þotan hrapaði og 154 farþegar og áhafnarmeðlimir létust.

Seselj hættur að svelta sig

Öfgaþjóðernissinninn serbneski Vojislav Seselj, er hættur við mótmælasvelti sem hann hefur haldið til streitu í 28 daga. Hann svalt sig til að krefjast þess meðal annars að skipt yrði um dómara í máli hans fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag. Hann hefur verið þar í haldi síðan árið 2003, ákærður fyrir stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu.

Aðlagist okkur eða farið annað -Ton y Blair

Fólk sem vill setjast að í Bretlandi verður að semja sig að umburðarlyndum gildum þess, eða fara eitthvað annað, sagði Tony Blair, forsætisráðherra, í erindi sem hann flutti í dag.

Þjóðverjar reykja áfram

Stjórnvöld í Þýskalandi hafa hafnað tillögum um að ríkisstjórnin banni reykingar í skólum og á veitingastöðum um land allt. Ríkisstjórnin ætlar að láta hvert hinna sextán ríkja ákveða fyrir sig hvort reykingar verða bannaðar.

Yfirheyra lykilvitni í njósnaramorði

Breskir og rússneskir lögreglumenn eru farnir að yfirheyra lykilvitni í morðinu á KGB njósnaranum Alexander Litvinenko, að sögn rússneskra fjölmiðla.

Vel þjálfaðar rottur

Þær eru vel þjálfaðar rotturnar sem tóku þátt í fjölþraut í Nebraska í Bandríkjunum í gær. Það voru háskólanemar í bænum Lincoln sem efndu til keppninnar og mætti hver þátttakandi með þrautþjálfaða rottuna sína. Þeim var svo gert að klifra upp kaðla, taka þátt í langstökki, synda, hlaupa yfir hindranir og klifra upp veggi.

Lykilvitni líkast til yfirheyrt í dag

Allt bendir til þess breskir lögreglumenn yfirheyri í dag lykilvitni í rannsókninni á morðinu á rússneska njósnaranum Alexander Litvinenko. Yfirheyrslunni hefur ítrekað verði frestað vegna þess að vitni hefur verið til rannsóknar hjá læknum í Moskvu.

Tugþúsundir lýstu stuðningi við Haniyeh og Hamas

Tugþúsundir stuðningsmanna Hamas samtakanna komu saman til útifundar, í dag, þar sem þeir kröfðust þess að Ismail Hanyeh, forsætisráðherra ríkisstjórnar Palestínumanna leiði hvaða ríkisstjórn sem stofnuð verður í landinu.

Skilyrði fyrir þátttöku

Bandaríkjaforseti og forsætiráðherra Bretlands segja að ekki verið rætt við Írana og Sýrlendinga um mögulegar lausnir á ástandinu í Írak, líkt og ráðgjafarnefnd Bandaríkjaforseta leggur til, nema að uppfylltum skilyrðum. Formaður nefndarinnar segir um heildstæða tillögu að ræða og ekki hægt að velja eitt og hafna öðru.

VRRRÚÚMMMM

Skrúðvagnar eru vinsælir í skrúðgöngum, í Bandaríkjunum. Þeir eru gjarnan fullir af fögrum meyjum, eða þá einhverjum fígúrum. Pallbílar eru gjarnan notaðir í þessum tilgangi. Ökumaður eins slíks var í gær handtekinn fyrir ölvun við akstur.

Hlýjasti vetur í langan tíma

Skíðabrekkur í ölpunum eru snjólausar, ferðamenn í róm ganga um í stuttermabolum og rósir blómstra í Lundúnum. Þetta eru lýsingarnar á vetrinum sem nú ríkir og verður að segja að hann er mildari en bjartsýnustu menn bjuggust við.

Madonna hannar fyrir H & M

Poppstjarnan Madonna hefur tekið að sér að hanna fatalínu fyrir sænska tískurisann Hennes & Mauritz. Föt Madonnu eiga að koma á markað í öllum verslunum fyrirtækisins í mars á næsta ári.

Kaffiárgangurinn '77 frá Brasilíu

Brasilíumenn treysta nú á að árgangasnobb vínáhugamanna geti smitast yfir í kaffi og kaffisekkirnir seljist dýrar eftir því sem þeir eru eldri. Brasilíumenn eiga nefnilega sitt kaffifjall eins og Íslendingar hafa átt fjöll af ýmsum landbúnaðarafurðum, - og kaffiverð er með hæsta móti um þessar mundir.

Rasið ekki um ráð fram í Írak

Bandarískur hershöfðingi ráðlagði stjórnvöldum í dag að auka ekki þjálfun íraskra öryggissveita í einum rykk nema að íhuguðu máli. Skýrsla Íraksnefndar sem birt var í gær mælir með því að þjálfun hersveita verði aukin upp í 10-20 þúsund sveitir, frá 3.000-4.000 núna.

Klinsmann mun ekki þjálfa Bandaríkjamenn

Jürgen Klinsmann dró sig út úr viðræðum um framtíð hans sem landsliðsþjálfari Bandaríkjamanna í fótbolta í dag. Ágreiningur um völd og peninga höfðu hamlað viðræðunum sem höfðu staðið yfir í nokkra mánuði, en svo virtist sem eitthvað væri að draga saman með Klinsmann og fótboltayfirvöldum vestra i vikunni.

Bretaprins sparar bensínið

Umhverfisvitundin er í tísku núna í Bretlandi og kóngafólkið gengur á undan með góðu fordæmi. Karl Bretaprins ætlar að leggja einkaþotum og -þyrlum og taka sér frekar far með áætlunarflugfélögum, lestum eða sparneytnum bílum.

Samband milli malaríu og alnæmis

Vísindamenn telja að tengsl séu á milli útbreiðslu malaríu og alnæmisveirunnar í Afríku. Í niðurstöðum þeirra sem birtast í nýjasta tímariti vísindatímaritsins Science kemur í ljós að þeir sem sýktir eru af malaríu séu mun líklegri til að sýkja bólfélaga sinn af HIV-veirunni við kynmök.

Mikið magn sprengiefna í miðaldabæ í Svíþjóð

Tíu hús voru rýmd í miðaldaborginni Visby í Svíþjóð eftir að lögreglan fann mikið magn sprengiefna í húsi þar í borg í gærkvöldi, þar sem góðkunningi lögreglunnar var til húsa. Auk sprengiefna fundust í húsinu eldfim efni og eiturlyf. Visby er stærsta borg eyjunnar Gotlands, sem er undan suðausturströnd Svíþjóðar.

Sjá næstu 50 fréttir