Fleiri fréttir

Einn á slysadeild eftir harðan árekstur

Beita þurfti klippum á bifreið til að ná manni úr bíl eftir harðan árekstur sem varð á Kringlumýrabraut rétt eftir klukkan níu í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá sjúkraflutningamönnum var einn maður fluttur á slysadeild. Ekki er vitað um tildrög slyssins að öðru leyti en því að um aftanákeyrslu var að ræða.

Pólitíkusar vilja stýra nýjum skóla í Úlfarsárdal

Þrjátíu umsækjendur voru um stöðu skólastjóra í samreknum leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili í Úlfarsárdal sem tekur til starfa í haust. Umsóknarfrestur rann út fyrir helgi og sóttu 23 konur um stöðuna og sjö karlar. Á meðal umsækjenda voru Hermann Valsson, varaborgarfulltrúi VG, og Petrína Baldursdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Grindavík. Báðum var nýverið hafnað í forvali flokka sinna.

Landsmönnum fækkaði um hálft prósent í fyrra

Fólksfækkun varð á landinu í fyrra í fyrsta sinn frá lokum 19. aldar. Þann 1. janúar síðastliðinn voru 317.630 íbúar með fasta búsetu á Íslandi, en 319.368 ári áður. Fækkunin nemur hálfu prósenti. Á síðustu fimm árum hefur fjölgun landsmanna þó verið hlutfallslega ör eða 1,6% á ári að jafnaði.

Fleiri skjálftar undir Eyjafjallajökli

Mun meiri skjálftavirkni var undir Eyjafjallajökli í nótt en í fyrrinótt. Þar hafa mælst 30 til 40 skjálftar á klukkustund og var sá snarpasti 2,6 á Richter. Flestir voru þó um og innan við tveir á Richter.

Brotist inn í tvo grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu

Brotist var inn í Árbæjarskóla í Reykjavík og í Setbergsskóla í Hafnarfirði í nótt. Á báðum stöðum var ýmsum tölvubúnaði stolið og einhverjar skemmdir unnar. Þjófarnir komust undan í báðum tilvikum og er þeirra nú leitað.-

Fundað í dag vegna flugumferðastjóradeilu

Samningamenn flugumferðarstjóra og Flugstoða koma saman til fundar hjá ríkissáttasemjara klukkan hálft tíu í dag, eftir að samningafundurinn í gær skilaði ekki árangri.

Ók á tvöföldum hámarkshraða

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði nítján ára ökumann í gærkvöldi eftir að bíll hans hafði mælst á 173 kílómetra hraða í Ártúnsbrekku. Þar er hámarkshraði 80 kílómetrar á klukkustund, þannig að hann var á meira en tvöföldum hámarkshraða. Hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða og mun mál hans að líkindum fara fyrir dómstóla.-

Víða brotist inn í sumarbústaði

Innbrotsþjófar gerðu tilraun til að stela hitalömpum úr gróðurhúsi í Reykhóltshverfi í Árnessýslu undir morgun. Eigandi gróðurstöðvarinnar var snemma á fótum og kom styggð að þjófunum, þegar þeir sáu til hans, og komust þeir undan. Brotist hefur verið inn í átta sumarbústaði í uppsveitum Árnessýslu undanfarna daga og þaðan stollið flatskjám og ýmsu öðru. Í einu tilvikinu virðist sem kona með barn hafi hafist við í bústað í einhvern tíma, án vitundar eða samþykkis eigendanna.

Tekinn úr tjörn við íbúðarhús

Furðufiskur sem fannst spriklandi úti í móa við Stekkjarhvamm í Hafnarfirði er síberíustyrja. Talið er að fugl hafi veitt skrautfiskinn úr tjörn við hús í Hafnar-firði.

Barn fékk tífaldan sýklalyfjaskammt

Sjö ára stúlka innbyrti um helgina tífaldan skammt af sýklalyfinu Furadantin, sem móðir hennar hafði leyst út í Árbæjar-apóteki. Málið hefur verið kært til Lyfjastofnunar.

Fólk í hjólastól fær ókeypis í Smárabíó

„Þarna get ég farið án þess að borga inn. Auðvitað kostar þetta stórfé í popp og kók en það er valfrjálst,“ segir Guðjón Sigurðsson, sem eins og aðrir sem eru í hjólastólum, fær frítt á sýningar í Smárabíói.

Gistirýmið er aldrei fullnýtt í Reykjavík

Alls bjóða nú 96 aðilar upp á gistingu í 4.898 rúmum á höfuðborgarsvæðinu, að því er kemur fram í gögnum frá Ferðamálaráði sem lögð voru fram á síðasta fundi skipulagsfulltrúans í Reykjavík.

Lítil breyting á meðallánum

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu rúmum 1,6 milljörðum króna í síðasta mánuði. Þetta er rúmlega helmingssamdráttur á milli ára og fjórðungslækkun á milli mánaða. Heildarútlánin námu 2,8 milljörðum króna í febrúar fyrir tveimur árum.

Hverfafundum borgarstjóra frestað

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri ætlar ekki að halda fyrirhugaða hverfafundi með íbúum Reykjavíkur. Hins vegar stendur til að halda þá síðar á árinu, eftir kosningarnar.

Í lagi fyrir skuldara að breyta myntkörfulánum

Þeir sem tekið hafa gengistryggð lán munu ekki missa rétt sinn vegna aðgerða stjórnvalda gegn skuldavanda heimilanna. Þar á meðal er niðurfærsla fjármögnunar-fyrirtækja á bílalánum.

Þrjú ungmenni svipt sig lífi í Hafnarfirði

Vaxandi vanlíðunar gætir í samfélaginu. Nauðsynlegt er að fólk sýni náunga sínum hlýhug, ekki síst börnum og ungmennum, segir prestur í Hafnarfjarðarkirkju. Þrjú ungmenni úr bænum hafa svipt sig lífi á árinu.

RÚV sjálfhætt læri það ekki á nýjustu tæknina

Það verður sjálfhætt með Ríkisútvarpið innan tíðar, fylgi stofnunin ekki tækniþróun og nái til yngra fólks, að mati menntamálaráðuneytisins. Vinna við nýjan þjónustusamning stofnunarinnar við ráðuneytið er langt komin.

Í farbann fyrir að hrista barn

Móðir ungabarns og sambýlismaður hennar hafa verið úrskurðuð í farbann og staðfesti Hæstiréttur Íslands úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess eðlis í dag.

Styttist í nýja sundlaug á Blönduósi

Blönduósingar fá nýja sundlaug eftir tvö mánuði. Bæjarstjórinn segir að framkvæmdirnar hafa bjargað miklu í að halda uppi atvinnu í kreppunni.

Skagaströnd græðir á atvinnuleysinu

Skagaströnd er sennilega eina byggðarlagið á Íslandi sem græðir á atvinnuleysi. Eftir því sem fleiri missa vinnuna, því fleiri störf skapast á Skagaströnd.

Skuldamálin við Húnaflóa eitt það sorglegasta í hruninu

Fjármálaherra og bankastjóri Landsbankans segja báðir að skuldastaða sparisjóðseigenda við Húnaflóa sé eitt það sorglegasta sem komið hafi á þeirra borð. Hvorugur treystir sér til að lofa þeim neinni sérmeðferð umfram aðra skuldara.

Bretar og Hollendingar bíða eftir gagntilboði Íslendinga

Bretar og Hollendingar eru tilbúnir að halda áfram samningaviðræðum við Íslendinga vegna Icesave. Samkvæmt fréttavef Reuters þá ræddu Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Jan Kees de Jager, fjármálaráðherra Hollands, saman í síðustu viku og þá var sameiginlegur skilningur þeirra að Ísland yrði að taka næsta skref í samningaviðræðunum og leggja fram gagntilboð.

Verst málssókn Gunnars

Gunnar Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, krefst einnar milljónar króna í skaðabætur vegna ummæla flokksbróður hans Þórarins Hjartar Ævarssonar, í Morgunblaðsgrein síðasta sumar. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.

Nafn mannsins sem lést

Maðurinn sem lést í umferðarslysi á Vallarvegi á Héraði í fyrradag hét Þórólfur Helgi Jónasson. Hann var frá Lynghóli í Skriðdal. Hann var fæddur 1988, ógiftur og barnlaus.

Þolinmæði lögreglumanna á þrotum

„Lögreglumenn hafa gríðarlegt langlundargeð og mikla þolinmæði en sú þolinmæði er nú á þrotum," segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, í pistli á vef sambandsins. Hann bendir á að kjarasamningar lögreglumanna hafi verið lausir í næstum 290 daga.

Fundum frestað - ekki blásnir af

Aðstoðarmaður borgarstjóra segir það ekki rétt að hefðbundnir hverfafundir borgarstjóra hafi verið blásnir af heldur verði þeir haldnir síðar á árinu, segir Magnús. Hann bendir á að í tilvitnuðum tölvupósti í fréttinni sjálfri komi fram að áætlun hafi. Það sé því ranglega ályktað að fundirnir verði ekki haldnir í ár.

Minni skjálftavirkni

Skjálftavirkni var enn undir Eyjafjallajökli í nótt, en þó mun minni en þegar mest var. Engin skjálfti mældist heldur yfir þremur á Richter og upptökin voru á miklu dýpi sem fyrr.

Pípari framseldur til Póllands

Dómsmálaráðherra var heimilt að framselja 53 ára gamlan pólskan pípulagningarmann til heimalands síns, en Hæstiréttur felldi úr gildi ógildingu héraðsdóms í málinu.

Flugumferðastjóradeilan enn í hnút

Ríkissáttasemjari hefur boðað flugumferðarstjóra og viðsemjendur þeirra á sáttafund klukkan hálfþrjú í dag. Ekkert þokaðist í samkomulagsátt á samningafundi á föstudag, og óformlegar þreifingar um helgina báru heldur engan árangur.

Sigurjón gefur kost á sér - vill Guðjón í ráðherrastól

Sigurjón Þórðarson hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Frjálslynda flokksins, segir fréttavefurinn Feykir. Landsþing flokksins fer fram í Reykjavík helgina 19. – 20. mars. Áður hafði Guðjón Arnar Kristjánsson, sem verið hefur formaður í 7 ár, gefið það út að hann gefi ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Sigurjón vill að Guðjón Arnar verði sjávarútvegsráðherra fari Frjálslyndi flokkurinn í ríkisstjórn.

Vill verða varaformaður Frjálslynda flokksins

Ásta Hafberg, nemi í háskólanum á Bifröst, hefur ákveðið að gefa kost á sér sem varaformaður Frjálslynda flokksins á landsþingi flokksins sem fer fram um næstu helgi og verður kosið í allar trúnaðarstöður flokksins. Ásta starfaði áður sem verkefnisstjóri hjá Markaðsstofu Austurlands.

Tveir teknir undir áhrifum fíkniefna í Ísafjarðardjúpi

Tveir ökumenn voru teknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna í Ísafjarðardjúpi í síðustu viku. Í öðru tilvikinu var lagt hald á ætluð fíkniefni, að fram kemur í dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum.

Óku of hratt um Ásbraut

Brot 15 ökumanna voru mynduð á Ásbraut í Hafnarfirði á föstudag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Ásbraut í vesturátt, á milli Vörðu- og Goðatorgs. Á einni klukkustund, fyrir hádegi, fóru 96 ökutæki þessa akstursleið og því óku allnokkrir ökumenn, eða 16%, of hratt eða yfir afskiptahraða, að fram kemur á vef lögreglunnar. Meðalhraði hinna brotlegu var 63 km/klst en þarna er 50 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 75.

Bæjarstjórinn leiðir Samfylkinguna á Akureyri

Framboðslisti Samfylkingarinnar á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor var samþykktur einróma á félagsfundi sem haldinn var um helgina. Í lok janúar fór fram prófkjör og er röð efstu manna í samræmi við niðurstöður þess en það er Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri, sem leiðir listann.

Hverfafundir borgarstjóra blásnir af

Búið er að blása af hverfafundi borgarstjóra en þeir hafa um árbil verið hugsaðir sem hluti af samræðum borgarbúa og æðsta stjórnanda Reykjavíkurborgar. Fjölmennur hópur sem fékk tölvupóst um málið var beðinn um að eyða fyrri dreifibréfi sínu varðandi fundina.

Við kolmunnaveiði vestur af Írlandi

Nokkur stór fjölveiðiskip sem hafa verið á loðnuveiðum til skamms tíma eru nú farin á kolmunnaveiðar vestur af Írlandi, enda er loðnukvótinn búinn. Aflabrögð virðast vera góð því eitt skipanna er þegar á heimleið með fullfermi.

Ekki boðað til samningafundar

Ekki hefur enn verið boðað til samningafundar með flugumferðarstjórum og vinnuveitendum þeirra. Flug frá landinu er með eðlilegum hætti því þegar flugumferðarstjórar frestuðu verkfallsaðgerðum fyrir helgi, náði sú frestun til aðgerða, sem áttu að hefjast klukkan sjö í morgun. Hinsvegar kemur til slíkra aðgerða á miðvikudagsmorgun og svo á föstudagsmorgun, náist ekki samningar.

Með fjögur kíló af amfetamíni

Ríkissaksóknari hefur ákært tvo menn fyrir að standa saman að innflutningi á tæpum fjórum kílóum af amfetamíni. Þeir ætluðu að selja efnið hér á landi.

Innbyrðis deilur sliga stjórn VR

Mikil ólga er í stjórn VR, stærsta stéttarfélags landsins, nú þegar póstkosning um stjórn og trúnaðarráð stendur fyrir dyrum. Tiltæki fjögurra stjórnarmanna úr samtökunum Nýju Íslandi, að skila á síðustu stundu inn mótframboði við áður samþykktan lista uppstillingarnefndar, hefur vakið hörð viðbrögð félaga þeirra í stjórninni.

Lítrinn lækkar ekki í bráð

Olíufélögin hafa hækkað lítraverð á bensíni um um það bil 20 krónur frá áramótum. Eftir fjögurra króna hækkun á eldsneytisverði á miðvikudag er algengt sjálfsafgreiðsluverð á bensínlítranum 208,2 krónur en dísillítrinn kostar víða 202,9 krónur.

Sjá næstu 50 fréttir