Olíufélögin hafa hækkað lítraverð á bensíni um um það bil 20 krónur frá áramótum. Eftir fjögurra króna hækkun á eldsneytisverði á miðvikudag er algengt sjálfsafgreiðsluverð á bensínlítranum 208,2 krónur en dísillítrinn kostar víða 202,9 krónur.
Eldsneytisverð hefur hækkað reglulega frá áramótum, þegar algengt sjálfsafgreiðsluverð á bensíni var 188,2 krónur og dísilolían kostaði 186,9 krónur. Hækkunin kemur þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi styrkst nokkuð undanfarið.
Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá N1, segir skýringuna á hækkandi eldsneytisverði mikla hækkun á heimsmarkaðsverði undanfarið. Á síðustu tæpu tveimur vikum hafi heimsmarkaðsverð á bensíni hækkað um átta prósent. Lítilsháttar lækkun nýverið hafi gengið margfalt til baka strax næsta dag.
Spurður hvort búast megi við lækkandi eldsneytisverði á næstunni sagðist Magnús svartsýnn á að það verði þróunin. „Ég myndi kannski ekki spá rosalegum hækkunum á næstunni, en ég er ekki bjartsýnn á að við sjáum lækkanir á næstu vikum," segir Magnús.
Hann segir undirliggjandi þrýsting hafa verið á hækkun undanfarið, en ákveðið hafi verið að bíða í lengstu lög með hækkanir í þeirri von að heimsmarkaðsverð lækkaði á ný.
Verri birgðastaða í Bandaríkjunum hefur leitt af sér hækkun á heimsmarkaðsverði á eldsneyti. Þá hefur heimskreppan einnig áhrif, enda halda þeir sem eiga peninga áfram að fjárfesta í hrávörum á borð við eldsneyti og gull í staðinn fyrir að fjárfesta í hlutabréfum. brjann@frettabladid.is