Fleiri fréttir

Erlendum ferðamönnum fjölgar mikið

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um rúm 19% fyrstu 6 mánuði ársins, miðað við sama tíma í fyrra, samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Leifsstöð. Mikil aukning var í júní síðastliðnum en þá fjölgaði ferðamönnum um fjórðung á milli ára. Í júní er aukning frá öllum markaðsvæðum.

Rekstrarstjórn DV og Birtings sameinuð

Útgáfufélag DV og útgáfufélagið Birtingur hafa verið sett undir sameiginlega rekstrarstjórn af því er fram kemur í tilkynningu frá Birtingi. Þar segir ennfremur að ekki sé um sameiningu félaganna að ræða heldur rekstrarlega hagræðingur. Þá mun Elín Ragnarsdóttir , framkvæmdastjóri Birtings, verða framkvæmdastjóri beggja félaga.

Skjálfti við Grímsey

Veðurstofa Íslands mældi jarðskjálfta upp á 3,0 á richterskvarða á Kolbeinseyjarhrygg vestan við Grímsey um fimm mínútur yfir þrjú í dag. Að sögn Veðurstofu Íslands er engin sérstök virkni á svæðinu. Skjálfti upp á 3,0 á richter þykir ekki snarpur en líklegt er að einhverjir Siglfirðingar hafi orðið hans varir.

Skipt um óþéttan loka í Endeavour

Bandaríska geimferðastofnunin NASA tilkynnti á miðvikudaginn að skipta ætti um óþéttan loka í geimferjunni Endeavour. Áætlað er að skjóta ferjunni á loft næsta þriðjudag.

Auka framlög til þróunarsjóðs um sex milljarða króna

Auka á framlög til þróunarsjóðs Evrópska efnahagssvæðisins um rúma sex milljarða króna á næstu árum samkvæmt samningi um stækkun Evrópska efnhagssvæðisins. Samningurinn var undirritaður í síðustu viku og tók hann formlega gildi í gær. Gert er á ráð fyrir verulegum niðurfellingum á sjávarafurðum.

Nektardans bannaður á Goldfinger

Nektardansstaðurinn Goldfinger hefur misst leyfi til nektarsýninga. Ný lög um veitingastaði og skemmtanahald tóku gildi um síðustu mánaðamót. Samkvæmt þeim þurfa veitingastaðir aðeins eitt rekstrarleyfi, í stað veitinga, skemmti- og vínveitingaleyfis.

Tveir ökuþórar teknir í Reykjavík

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í gærkvöldi karlmann á fertugsaldri fyrir að aka bifhjóli á 166 kílómetra hraða á Miklubraut. Maðurinn var sviptur ökuleyfi til bráðabirgða en hámarkshraði á þeim kafla þar sem hann var tekinn er 60 kílómetrar á klukkustund.

Mótmælaskilti rifin niður í skjóli nætur

Andstæðingar virkjana í neðri hluta Þjórsár eru í öngum sínum eftir að skilti sem þeir settu upp til þess að mótmæla virkjunaráformunum voru rifin niður í nótt. Skiltin voru tvö, og var öðru þeirra komið fyrir á hlaði bóndans sem setti það upp. Hitt skiltið er enn ekki komið í leitirnar. Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu en formleg kæra hefur ekki borist.

Reyna að setja heimsmet í fisflugi

Orustuflugmenn í indverska flughernum freista þess að setja heimsmet í hnattflugi á vélknúnum fisflugvélum. Ágúst Guðmundsson, tengiliður mannanna á Íslandi, segir að vélin sé nú stödd í Kulusuk á Grænlandi.

Fjórir sóttu um stöðu hæstaréttardómara

Fjórir sóttu um embætti hæstaréttadómara sem skipað verður í frá og með 1. september 2007. Umsóknarfresturinn rann út þriðjudaginn 31. júlí síðastliðinn.

Össur ekki hrifinn af hugmyndum um olíuhreinsistöð

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segist ekki vera hrifinn af hugmyndum um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Hann segir að ráðuneytið ætli ekki að leggjast í neinar athugunar vegna málsins. Þetta kemur fram í viðtali við ráðherrann á vef Bæjarins besta.

Dánartalan hækkar

Fleiri lík hafa fundist í kjölfar þess að brú hrundi í Minneapolis í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Staðfest hefur verið að fjóri séu látnir en Reuters fréttastofan hefur eftir lögreglustjóranum í borginni að fleiri hafi fundist látnir á slysstaðnum. Hann vildi þó ekki segja hve mörg lík hefðu fundist til viðbótar.

Lögreglan boðar viðamikið eftirlit um verslunarmannahelgi

Fylgst verður grannt með íbúarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu um næstu helgi til að koma í veg fyrir innbrot. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni sem boðar viðamikið eftirlit um næstu helgi. Fólk er hvatt til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir.

Borgarráð fundar með lögreglustjóra vegna ofbeldis í miðbænum

Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði hafa óskað eftir að skilyrði rekstrarleyfa veitingastaða varðandi umgengni og öryggi verði tekið til endurskoðunar. Tilefnið er fólskuleg árás þriggja stúlkna á konu í miðbæ Reykjavíkur um síðustu helgi. Borgarráð hefur ákveðið að kalla lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins á sinn fund til að ræða aukna löggæslu í miðborginni.

Vilja nýjan Herjólf

Vinstri grænir á Suðurlandi vilja að fenginn verði nýr Herjólfur til að leysa núverandi skip af hólmi á leiðinni Vestmannaeyjar – Þorlákshöfn. Skipið skuli fullnægja flutningsþörfinni og fara 3 ferðir á sólarhring.

Sláturhús sögð hindra innflutning á kjöti

Sláturhús eru sökuð um að beita bellibrögðum til þess að hindra innflutning á kjöti á svokölluðum núllkvóta. Og landbúnaðarráðuneytið er sakað um að líta á þetta með velþóknun. Formaður neytendasamtakanna segir að útboðsaðferðin sé gersamlega misheppnuð. Fjölmargir fagaðilar hafa tjáð sig um þennan kjötinnflutning í fjölmiðlum undanfarið. Þarna er verið að fjalla um 550 tonn af kjöti sem boðin voru út í mars á núll krónur í toll.

Ósamræmi milli tekjublaða

Mikill munur er oft á uppgefnum tekjum einstaklinga í tekjublöðum Frjálsrar verslunar og Mannlífs. Á tekjulistum blaðanna má einnig sjá að sumir þekktir einstaklingar eiga varla til hnífs og skeiðar.

Ráðherra vill einkavæða RÚV

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, vill selja RÚV ef marka má bloggfærslu hans á heimasíðu sinni í gær. Hver getur skilið færsluna eins og hann vill, segir dómsmálaráðherra.

Ekið á tvö börn með stuttu millibili

Ekið var á barn á hjóli við Holtsbúð í Garðabæ rétt fyrir klukkan 11 í morgun. Sjúkraflutningamenn voru kvaddir á staðinn en ekki er ljóst hvort barnið hafi slasast alvarlega. Ekið var á annað barn í Staðarhverfinu í Grafarvogi eftir hádegi í gær og var barnið flutt á bráðamótttöku Landspítala - Háskólasjúkrahúss.

Lögreglustjóri Lundúna hreinsaður af ásökunum

Lögreglustjóri Lundúna hefur verið hreinsaður af ásökunum um að hafa logið að almenningi í tengslum við dauða Jean Charles de Menezes. De Menezes var skotinn til bana af lögreglumönnum. Skýrslan kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að aðstoðarlögreglustjórinn Andy Hayman hafi villt um fyrir almenningi.

Bush bannar aðstoðarmanni sínum að bera vitni

George Bush Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað fyrrum aðstoðarmanni sínum, Karl Rove, að bera ekki vitni fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings um uppsagnir átta saksóknara. Nefnd á vegum öldungadeildarinnar rannsakar nú hvort þeim hafi verið sagt upp af pólitískum ástæðum. Stjórn Bush heldur því fram að brottreksturinn hafi verið réttlætanlegur.

Nýsir kaupir allar fasteignir Háskólans á Bifröst

Háskólinn á Bifröst og fasteignafélagið Nýsir hf. hafa gert með sér samkomulag um kaup fyrirtækisins á öllum húseignum skólans. Nýsir mun síðan leigja háskólanum til baka allar fasteignirnar.

Íslendingur aðstoðaði við björgunarstörf

Íslendingur var sjónarvottur að því þegar átta akreina brú í Minneapolis hrundi á háannatíma. Að minnsta kosti sjö létust í slysinu. Einar Guðjónsson, segir á athugasemdakerfi Vísis að hann hafi nánast séð brúna hrynja í baksýnisspeglinum örfáum mínútum eftir að hann hafði sjálfur keyrt eftir henni.

Ökumenn sýni varkárni um verslunarmannahelgina

Slysavarnafélagið Landsbjörg brýnir fyrir mönnum að sýna varkárni í umferðinni um verslunarmannahelgina og ítrekar nauðsyn þess að forðast framúrakstur og keyra ekki þreytt eða undir áhrifum áfengis.

Verðbólgan mælist 6,6%

Vísitala neysluverðs í júlí 2007 hækkaði um 0,22% frá fyrra mánuði, eftir því sem fram kemur í Hagtíðindum Hagstofu Íslands. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitalan hækkað um 3,8% en breytingin undanfarna þrjá mánuði svarar til 6,6% ársverðbólgu.

Gen örvhentra líklega fundið

Vísindamenn hafa í fyrsta skipti uppgötvað gen sem virðist auka líkur á að fólk verði örvhent. Genið LRRTM1 virðist gegna lykilhlutverki í að stjórna því hvaða hluti heilans stýrir starfsemi á borð við mál og tilfinningar samkvæmt rannsókninni.

Varað við flóðbylgju í Japan

Einn lést þegar jarðskjálfti sem var 6,4 á Richter skók kyrrahafseyjuna Sakhalin í Rússlandi, norður af Japan. Engar meiriháttar skemmdur urðu á mannvirkjum. Flóðbylgjuviðvörun var í kjölfarið gefin út fyrir Hokkaídoeyju við Vesturströnd Japans. 20 centimetra bylgja hefur komið á land nú þegar, og er búist við stærri bylgjum.

Mannræningjarnir höfðu leitað að fórnarlömbum um nokkurt skeið

Talibanahópurinn, sem hefur tuttugu og einn suður-kóreskan gísl á valdi sínu, hafði verið að leita að fórnarlömbum um nokkurt skeið, eða frá því að æðsti maður hópsins, Daro Kahn, var handtekinn af bandarískum hermönnum í Qarabagh-héraðinu í júní. Þetta kemur fram í viðtali við einn af æðstu mönnum hópsins sem tímaritið Newsweek birtir í dag.

Afrit af samskiptum brasilísku flugmannanna birt

Afrit af síðustu sekúndum samskipta flugmannanna tveggja sem voru við stjórnvölinn þegar versta flugslys í brasilískri sögu átti sér stað var í dag lesið upp fyrir rannsóknarnefnd brasilíska þingsins. Samkvæmt upptökum úr flugvélinni kallaði annar flugmanna að hægja þyrfti ferðina en hinn svaraði því til að hann gæti það ekki.

Bílvelta í Hvalfirði

Einn maður var fluttur í skyndi með sjúkrabíl á Slysadeild í Fossvogi eftir bílveltu á Eyrarfjallsvegi við bæinn Mýrdal í Kjós. Að sögn lögrelgunnar á höfuðborgarsvæðinu átti slysið sér stað rétt eftir klukkan sjö í kvöld. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar að svo stöddu.

Flugóhapp við Múlakot í Fljótshlíð

Engan sakaði þegar nefhjólið gaf sig á tveggja hreyfla flugvél á flugvellinum við Múlakot í Fljótshlíð í kvöld. Er nefhjólið gekk upp lagðist flugvélin, sem tveir voru í, á nefið. Lögreglan á Hvolsvelli er á staðnum en frekari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Unglingsstúlka flutt með þyrlu á slysadeild eftir bílveltu í Gnúpverjahreppi

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti sautján ára stúlku á slysadeild í Reykjavík eftir að bíll sem hún var farþegi í valt í Gnúpverjahreppi rétt fyrir ofan Geldingaholt í kvöld. Grunur leikur á að stúlkan hafi hlotið háls- og hryggáverka. Fimm manns voru í bílnum og var stúlkan farþegi í aftursæti hans. Annar farþegi var færður til skoðunar á Heilsugæslustöðina í Laugarási en aðrir sem í bílnum voru sluppu ómeiddir að sögn lögreglunnar á Selfossi.

Lindarvatn úr Eyjafjöllum uppistaðan í vestmannaeyskum bjór

Lindarvatn úr Eyjafjöllunum verður uppistaðan í nýjum íslenskum bjór, framleiddum í Vestmannaeyjum, ef hugmyndir um bjórverksmiðju í Eyjum verða að veruleika. Með tilkomu Bakkafjöru lækkar flutningskostnaður bjórsins uppá fastalandið til muna.

Átján ára aldurstakmark inn á tjaldsvæði á Siglufirði

Aðstandendur Síldarævintýris á Siglufirði vilja í ljósi umræðu um aldurstakmörk á tjaldsvæðum um verslunarmannahelgina taka það fram að börnum yngri en 18 ára er bannaður aðgangur að tjaldsvæðum á Siglufirði nema þau séu í fylgd foreldra eða forráðamanna.

Skátar fagna afmæli hreyfingarinnar

Skátahreyfingin fagnar í dag eitt hundrað ára afmæli. Íslenskir skátar sem staddir eru á alheimsmóti skáta í Englandi buðu upp á kjötsúpu í tilefni dagsins.

1200 milljóna króna skuld Byggðastofnunnar aflétt

Iðnaðar- og fjármálaráðherra hafa ákveðið að aflétta 1200 milljóna króna skuld Byggðastofnunnar, til að koma til móts við vanda útgerðanna í kjölfar kvótaskerðingar. Þetta var tilkynnt við opnun Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Ísafirði í dag.

Gengur á 100 hæstu tinda landsins

Þorvaldur Víðir Þórisson er líklega ókrýndur háfjallakóngur Íslands. Hann hefur á þessu ári klifið sjötíu og tvo af hundrað hæstu tindum landsins og stefnir á að ljúka við að klífa þá alla fyrir fimmtugsafmælið sitt í október.

Olíuverð náði sögulegu hámarki

Verð á olíu náði sögulegu hámarki í dag þegar verð á olíutunnunni komst í tæpa sjötíu og níu bandaríkjadali. Talið er að hækkunina megi rekja til áhyggna af því hvort olíuframboð geti mætt eftirspurn eftir olíu á heimsvísu.

Óásættanleg hegðun á Akureyri síðustu ár, ástæðan

Ekki var lengur hægt að sætta sig við að öllum viðmiðum siðmenningar væri sleppt um verlsunarmannahelgi segir talsmaður tjaldsvæðanna á Akureyri um þá ákvörðun bæjaryfirvalda að setja aldurstakmark á tjaldssvæði bæjarins. Síðast liðin ár hefur gefist illa að blanda saman ungu fólki og fjölskyldufólki og því var gripið til þessa örþrifaráðs.

Bankagróði 6 mánaða dygði grunnskólum í 2 ár

Þrír stærstu bankar landsins högnuðust um tæpa níutíu milljarða á fyrri hluta ársins. Hagnaðurinn myndi duga til að reka alla grunnskóla á landinu í meira en tvö ár. Landsbankinn kynnti afkomu á fyrri hluta ársins í dag og er hagnaðurinn röskir 26 milljarðar.

Kerfisskýring á fæð skattadrottninga

Af þeim níutíu sem raðast á topp tíu lista skattaumdæmanna eru sex konur. Skattadrottning landsins er Ingunn Gyða Wernersdóttir sem greiðir þriðju hæstu skatta landsins. Margrét Kristmannsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnurekstri, segir fæð kvenna meðal hæstu skattgreiðenda skýrast meðal annars af því að fjármagnstekjur reiknist á þann makann sem hefur hærri launatekjur.

Sjá næstu 50 fréttir