Innlent

Ráðherra vill einkavæða RÚV

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, vill selja RÚV ef marka má bloggfærslu hans á heimasíðu sinni í gær. Hver getur skilið færsluna eins og hann vill, segir dómsmálaráðherra

Í færslu sinni veltir dómsmálaráðherra fyrir sér hlutafélagavæðingu RÚV og markmiðum hennar og er svo að skilja að ráðherra sé andvígur kaupum RÚV á starfsmönnum annarra stöðva en skemmst er að minnast þess er Egill Helgason færði sig frá Stöð 2 yfir á Ríkissjónvarpið. Þá spyr ráðherra hvort markmiðum hlutafélgavæðingarinnar hafi verið náð með þessu og hvort ekki sé réttast að selja RÚV. Orðrétt segir ráðherra:

Hlutafélagavæðing RÚV hafði ekki að markmiði að auðvelda RÚV að kaupa starfsmenn annarra stöðva og veita þeim ríkisskjól. Væri ekki best,að selja batteríið allt (fyrir utan gömlu gufuna), svo að snillingarnir gætu keppt við Baugsmiðlana á jafnréttisgrundvelli, án þess að fá nefskatt

Síðan segir Björn:

Rupert Murdoch tókst að finna formúlu til að kaupa The Wall Street Journal. Hann er ekki með neina Kínamúra milli ritsjónarstefnu og frétta. Hann rekur fjölmiðla án þeirrar hræsni, að sjónarmið eigandans séu marklaus.

Í samtali við fréttastofu í morgun sagði Björn Bjarnason að hann væri aðeins að velta fyrir sér þróuninni á þessum markaði. Hann vildi ekki skýra færsluna nánar, sagði hvern og einn verða að skilja hana eins og hann vill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×