Fleiri fréttir

Sprenging í írakska þinginu

Mikil sprenging varð í írakska þinghúsinu rétt í þessu og talið er að fjölmargir hafi látið lífið. Vitni sögðu að svo virtist sem sprengingin hefði átt sér stað á veitingastað í þinghúsinu þegar margir þingmenn voru á staðnum. Sky News segja að sex þingmenn hafi látið lífið og fjölmargir særst. Í ljós hefur komið kom að sjálfsmorðssprengjumaður var að verki.

Strætóbílstjórar í bæjum í Danmörku leggja niður vinnu

Strætisvagnasamgöngur liggja niðri í fjölmörgum bæjum á Jótlandi og á Borgundarhólmi í dag vegna mótmæla strætisvagnabílstjóra. Þeir eru ósáttir við að fá ekki sömu laun og starfsbræður þeirra í Kaupmannahöfn og nágrenni.

Vill fækka sólarlandaferðum

Leiðtogi norska Vinstri flokksins vill að Norðmenn fækki sólarlandaferðum sínum niður í mest eina á ári, til þess að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Landsfundur flokksins hefst í Bergen á morgun og Lars Sponheim segir að þar verði umhverfismálin efst á dagskrá. Hann húðskammar ríkisstjórnina fyrir slælega frammistöðu og segir að almenningur verði að færa fórnir.

Hársbreidd frá því að skjóta niður farþegaþotu

Það munaði ekki nema hársbreidd að ísraelskar orrustuþotur skytu niður bandaríska farþegaflugvél sem var að fara að lenda í Tel Aviv, í gær. Þotan var frá Continental Airlines. Flugmönnunum láðist að tilkynna komu sína inn í ísraelska lofthelgi. Flugumferðarstjórar kölluðu vélina margsinnis upp, en þegar hún svaraði ekki voru fjórar orrustuþotur sendar á móti henni.

Elbaradei segir ástæður Írana áhyggjuefni

Mohamed Elbaradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IEAE), sagði í dag að Íranar væru enn á byrjunarstigum úranframleiðslu. „Það er hægt að skilgreina hvað stórframleiðsla sé á mismunandi vegu. En Íranar hafa rétt hafið vinnu á kjarnorkustöð þar sem hægt er að auðga úrani.“ sagði Elbaradei við fréttamenn.

Fokker-vél Landhelgisgæslunnar komin austur til leitar

Björgunarsveitir frá öllu Austurlandi leita sjómanns í og við Vopnafjörð en bátur hans fannst mannlaus í fjörunni í Vopnafirði seint í gærkvöldi. Um 70 manns taka nú þátt í leitinni sem staðið hefur í alla nótt. Bæði þyrla og varðskip Landhelgisgæslunnar taka einnig þátt í leitinni og þá er Fokker-vél gæslunnar einnig komin austur til leitar.

Gerðu loftárás á talibana

Bandaríkjaher felldi nokkra tugi talibana í loftárás í suðurhluta Afganistan í gær. Árásin var gerð þegar talibanar sátu fyrir stjórnarhernum í Afganistan á leið þeirra frá Kabúl til Kandahar. Enginn liðsmaður hersins féll í loftárásunum. Embættismenn í Afganistan skýrðu frá þessu í morgun.

Vaka fagnar hugmyndum um ókeypis strætó

Stjórn Vöka, félags lýðræðissinnaðra stúdenta,fagnar þeim tillögum umhverfisráðs Reykjavíkurborgar að veita námsmönnum frítt í strætó næsta haust. Í ályktun félagsins kemur fram að bættar almenningssamgöngu hafi lengi verið baráttumál stúdenta og skorar félagið á önnur sveitarfélög að fara að fordæmi Reykjavíkurborgar og bjóða námsmönnum frítt í strætó.

Sakfelldir fyrir að kaupa 110 þúsund smyglsígarettur

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt tvo karlmenn í 45 daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 300 þúsund krónur í sekt fyrir að hafa keypt saman 550 karton af sígarettum sem þeir máttu vita að var smyglvarningur.

Gerber og Nestle í eina sæng

Swisslenska fyrirtækið Nestle hyggst tilkynna kaup á Bandaríska barnamats merkinu Gerber í dag. Tilboðið hljómar upp á 5 milljarða Bandaríkjadollara. Snemma á tíunda áratugnum reyndi Nestle að kaupa Gerber fyrir 2,5 milljarða en kaupin gengu ekki eftir. Með kaupum á Gerber vill Nestle bæta ímynd sína og komst inn á hollari markað en þeir hafa hingað til verið á. Gerber er nú í eigu lyfjafyrirtækisins Novartis.

Brasilísk flugmálayfirvöld telja flug vera öruggt

Flugmálayfirvöld í Brasilíu telja flug á þeirra yfirráðasvæði vera örugg, þrátt fyrir að flugturnar þeirra séu undirmannaðir og að þangað vanti nýrri tæki. Nú þegar hafa flugumferðastjórar farið einu sinni í verkfall og þeir hóta að gera það aftur en ekkert breytist.

Bókin Delicious Iceland hlýtur heiðursverðlaun

Bókin Delicious Iceland eftir þá Völund Snæ Völundarson matreiðslumann og Hrein Hreinsson ljósmyndara hlut um helgina sérstök heiðursverðlaun, The Gourmand Cookbook Awards, en það eru ein virtustu verðlaun heims í matar- og vínbókmenntum. Forsvarsmenn keppninnar föluðust sérstaklega eftir þátttöku bókarinnar þegar hún var kynnt á alþjólegu bókasýningunni í Frankfurt í fyrra.

AC Milan og Liverpool í undanúrslit Meistaradeildarinnar

AC Milan mætir Manchester United í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu eftir að ítalska liðið lagði Bayern München 2-0 í seinni leik liðanna í Þýskalandi í kvöld. Þá tryggði Liverpool sér einnig sæti í undanúrslitunum með því að leggja hollenska liðið PSV Eindhoven 1-0 á Anfield í kvöld. Þar mætir liðið Chelsea líkt og í undanúrslitum keppninnar 2005.

Saka Írana um að vopnbúa uppreisnarmenn súnnía

Talsmaður Bandaríkjahers sakaði í dag Írana um að um sjá uppreisnarmönnum úr röðum súnnía í Írak fyrir vopnum í baráttu sinni. Þetta er í fyrsta sinn sem Bandaríkjaher heldur slíku fram en áður höfðu Bandaríkjamenn sakaða Írana, sem eru langflestir sjíar, um að sjá sjíum í Írak fyrir vopnum.

Góðgerðafélög þurfa ekki að berjast eins mikið og áður

Góðgerða-og sjúklingafélög þurfa ekki að berjast eins mikið í bökkum fjárhagslega nú eins og áður vegna gjafmildi stórfyrirtækja, segir formaður MS félagsins sem fékk í dag eina milljón króna frá Menningarsjóði Landsbankans. Sjötíu og fimm góðgerðarfélög fengu sömu fjárhæð frá Menningarsjóðnum í dag.

Þarf að mennta sjúkraflutningamenn úti á landi meira

Auka þarf menntun sjúkraflutningamanna úti á landi og huga sérstaklega að Austurlandi, segir í nýrri úttekt um sjúkraflutninga. Þá er rugl að geyma allar björgunarþyrlurnar í Reykjavík, segir læknir.

Meinað að fermast í Digranessókn þar sem móðirin var í Fríkirkjunni

Unglingsstúlku var í haust meinað að fermast í Digranessókn vegna þess að móðir hennar er í Fríkirkjunni. Móður stúlkunnar var tilkynnt að ef hún gengi úr Fríkirkjunni fengið barnið að fermast, annars ekki. Presturinn, séra Magnús Björnsson, býður Fríkirkjuprestinum, Hirti Magna Jóhannssyni, í kaffi til að semja um þessi mál.

Mega ættleiða en fá ekki að nýta sér tæknifrjóvgun

Frá því að lögum um tæknifrjóvgun var breytt hefur fjöldi lesbískra para gengist undir slíkar aðgerðir. Sérfræðingur á þessu sviði segir bagalegt að einhleypar konur skuli enn ekki hafa fengið að nýta sér þá tækni sem er fyrir hendi, ekki síst í ljósi þess að þær mega ættleiða börn.

Fílsunginn trekkir að

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína í dýragarðinn í Hamborg í Þýskalandi undanfarinn sólarhring til að berja augum lítinn fílskálf sem kom þar í heiminn í gær. Litli fíllinn er reyndar ekkert mjög lítill því fæðingarþyngd hans var 86 kíló og stærðin yfir herðakambinn 96 sentimetrar.

Litháar úrskurðaðir í farbann vegna þjófnaða

Hæstiréttur staðfesti í dag farbann héraðsdóms yfir tveimur Litháum sem grunaðir eru um þjófnaði hér á landi í síðasta mánuði. Gildir farbannið þar til dómur fellur í máli þeirra en þó ekki lengur en til 2. maí.

Sólgos talin hafa áhrif á loftslagsbreytingar

Æ fleiri vísindamenn eru að komast á þá skoðun að samspil sólgosa og geimryks hafi talsvert að segja um loftslagsbreytingar á jörðinni. Þeir telja að fylgni sé á milli hlýnunar jarðar og mikilla sólgosa undanfarna áratugi.

Samtök tengd al-Kaída lýsa yfir ábyrgð

Samtök sem kenna sig við al-Kaída segjast bera ábyrgð á sprengjuárásum sem gerðar voru Algeirsborg í Alsír í dag. Þrjátíu létu lífið í tilræðunum, sem meðal annars var beint gegn forsætisráðherra landsins.

Níu ára stelpa bitin af hundi

Níu ára stúlka var bitin af hundi í Reykjavík í gær. Stúlkan var flutt á slysadeild en sauma þurfti átta spor í framhandlegg hennar. Stúlkan er vön að umgangast hunda en sá sem beit hana er henni alls óviðkomandi. Ekki er ljóst að svo stöddu hvað verður um hundinn.

Meirihluti Sunnlendinga andvígur Þjórsárvirkjunum

Þriðjungur kjósenda í Suðurkjördæmi er hlynntur virkjunum í neðri hluta Þjórsár, en tveir þriðju eru þeim andvígir. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Stöð 2. Spurt var hvort viðkomandi væri hlynntur eða andvígur því að virkjað verði í neðri hluta Þjórsár. Mjög andvígir virkjun reyndust 29% og 18% frekar andvígir. Hvorki hlynntir né andvígir reyndust vera 17%, sem er sami fjöldi og var frekar hlynntur og mjög hlynntir voru líka 17%. Þegar bara er litið á þá sem taka ákveðna afstöðu kemur í ljós að 57%, eða tæplega tveir þriðju kjósenda í Suðurkjördæmi eru andvígir virkjunum í neðri hluta Þjórsár, en þriðjungur hlynntur.

Íslenska hagkerfið er í ójafnvægi

Íslenska hagkerfið er í miklu ójafnvægi um þessar mundir og viðskiptahallinn aldrei verið meiri, segir í nýju riti Samfylkingarinnar um efnahagsmál sem starfshópur undir stjórn Jóns Sigurðssonar, fyrrum ráðherra og seðlabankastjóra, vann að. Einnig segir að hætta sé á að Ísland missi allan trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eins og hafi sannast í mars sl. þegar matsfyrirtækið Fitch Ratings lækkaði lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í innlendri og erlendri mynt.

Tíu skref að grænni borg

Eigendur vistvænna bíla fá ókeypis í stæði borgarinnar og námsmenn í Reykjavík fá frítt í Strætó frá og með næst hausti. Þetta er hluti af nýrri tíu skrefa áætlun Reykjavíkurborgar í umhverfismálum.

Rannsaka hvort um nýjan virkan eignarhlut sé að ræða

Yfirtökunefnd kom saman í dag til að ræða sölu á stórum hlut í Glitni en nefndin kannar hvort yfirtökuskylda hafi myndast með kaupum Saxbyggs og fleiri aðila á hlutabréfunum. Þá skoðar Fjármálaeftirlitið hort nýr virkur eignarhlutur hefur myndast en leyfi þarf til að fara með virkan eignarhluthlut í bönkunum.

VG fjórfaldar fylgið og fær tvo þingmenn í Suðurkjördæmi

Vinstri hreyfingin grænt framboð meira en fjórfaldar fylgi sitt í Suðurkjördæmi frá því í síðustu kosningum samkvæmt nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun gerði á fylgi flokkanna í kjördæminu fyrir stöð 2. Flokkurinn fengi tvo þingmenn í kjördæmi þar sem hann hefur engan nú.

Nefnd skoðar verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málefnum aldraðra

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd til að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og mögulega tilfærslu verkefna sem tengjast málefnum aldraðra. Skipun nefndarinnar er í samræmi við stefnu ráðherra í öldrunarmálum, Ný sýn- nýjar áherslur þar sem boðað var að verkaskipting í öldrunarþjónustu yrði endurskoðuð með það að markmiði að bæta árangur á þessu sviði, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Nota Indland og Kína sem afsökun til að menga

Bandaríkjamenn nota Indland og Kína sem afsökun til að koma sér hjá því að draga úr útblæstri gróðurhúsaloftegunda að mati Maneka Gandhi, fyrrverandi umhverfisráðherra Indlands.Þetta kom fram í máli hins fyrrverandi ráðherra á blaðamannfundi í Brussel í dag. Hann segir fáránlegt af Bandaríkjamönnum að ætlast til þess að Indland og Kína gangist undir Kyoto bókunina á þessum tímapunkti.

Tengivagn dreginn í bæinn til rannsóknar

Enn er allt á huldu um það hvers vegna tengivagn slitnaði aftan úr flutningabifreið á vegum Landflutninga - Samskipa til móts við Steinabæi undir Eyjafjöllum í morgun.

Danir kvarta minna yfir fríblöðum

Danski samgöngumálaráðherrann hefur fallið frá þeirri hugmynd að setja sérstök lög til að koma í veg fyrir að fríblöðum sé dreift inn á dönsk heimili. Upphaflega settu margir Danir sig gegn því að fá fríblöðin óumbeðið heim til sín og bárust samgöngumálaráðuneytinu yfir tvö hundruð kvartanir í hverjum mánuði vegna þessa. Snarlega hefur hins vegar dregið úr kvörtunum að undanförnu og voru þær rétt um eitt hundrað í síðasta mánuði.Minnst er kvartað yfir dreifingu Nyhedsavisen.

Þrír ungir piltar grunaðir um tvö innbrot í borginni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær þrjá unglinga sem grunaðir eru um innbrot á tveimur stöðum. Eftir því sem fram kemur í frétt frá lögreglunni var sextán ára piltur handtekinn í vesturhluta borgarinnar í gærkvöld á stolnum bíl.

Al-Qaida segist bera ábyrgð á árásum í Algeirsborg

Hópur tengdur al-Qaida hryðjuverkasamtökunum segist bera ábyrgð á sprengjuárásum í miðborg Algeirsborgar, höfuðborgar Alsírs, í morgun sem kostuðu að minnsta kosti á annan tug manna lífið. Þá særðust að minnsta kosti 80 manns í árásunum.

Aukinn forgangur hjá strætó og meiri endurvinnsla

Ókeypis bílastæði fyrir vistvæna bíla, aukinn forgangur strætisvagna í umferðinni og aukin endurvinnsla eru meðal þeirra grænu skrefa sem borgaryfivöld ætla að ráðast í á næstu árum. Forsvarsmenn borgarinnar kynntu þessar hugmyndir á blaðamannafundi í dag.

Spá því að Íslendingar verði yfir hálf milljón 2050

Íslendingar telja að íbúar landsins verði orðnir 533 þúsund um miðja öldina samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök atvinnulífsins á framtíðarviðhorfum þjóðarinnar. Eftir því sem fram kemur á vef samtakanna er þetta töluvert meira en mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir og sömuleiðis spá Samtaka atvinnulífsins.

Fer fram á 12 ára fangelsi yfir höfuðpaur í Munch-málinu

Ríkissakóknari í Noregi fór í dag fram á það fyrir lögmannsrétti að þrír menn sem sakfelldir voru fyrir að hafa rænt málverkunum Ópinu og Madonnu af Munch-safninu í Olsó fyrir nærri þremur árum yrðu dæmdir í sjö til tólf ára fangelsi.

Hvalshræ í fjörunni við golfvöllinn í Grindavík

Hvalur, sem líklega er hrefna, hefur rekið upp í fjöru skammt frá golfvellinum í Grindavík. Að því er fram kemur á vef Víkurfrétta er talið líklegt að hvalurinn hafi legið í fjörunni í nokkurn tíma enda hefur hann rotnað töluvert.

Lífskjörin fara stöðugt versnandi

Fjórum árum eftir innrásina í Írak fer hagur þjóðarinnar stöðugt versnandi. Í nýrri skýrslu Alþjóðaráðs Rauða krossins segir að vargöldin í landinu hafi gert líf almennings óbærilegt, sjúkrahús séu óstarfhæf vegna ótta starfsfólks og skortur á brýnustu nauðsynjum sé viðvarandi.

Sjá næstu 50 fréttir