Innlent

Meinað að fermast í Digranessókn þar sem móðirin var í Fríkirkjunni

Unglingsstúlku var í haust meinað að fermast í Digranessókn vegna þess að móðir hennar er í Fríkirkjunni. Móður stúlkunnar var tilkynnt að ef hún gengi úr Fríkirkjunni fengið barnið að fermast, annars ekki. Presturinn, séra Magnús Björnsson, býður Fríkirkjuprestinum, Hirti Magna Jóhannssyni, í kaffi til að semja um þessi mál.

Fréttastofa hefur í dag rætt við nokkra einstaklinga sem segja sínar farir ekki sléttar af samskiptum við presta í Kópavogi vegna tengsla viðkomandi við Fríkirkjuna. Þeirra á meðal er fjögurra barna móðir, Sigríður Sigmarsdóttir, sem hringdi í haust í séra Magnús Björnsson í Digraneskirkju til að skrá dóttur sína í fermingarfræðsluna.

Hún kveðst hafa gloprað því út úr sér í samtalinu að hún væri í Fríkirkjunni. Þá segir Sigríður að presturinn hafi sagt að hann gæti ekki fermt hana nema hún gengi úr Fríkirkjunni, þá væri það ekkert mál.

Til þess kom þó ekki því dóttir hennar ákvað að fermast heldur í Fríkirkjunni. En Sigríður er ekki sátt. Hún segir þetta engan veginn rétt. Kirkjan eigi að taka á móti öllum sem til hennar leiti.

Sigríður fæddist inn í Fríkirkjuna en segist vandræðalaust hafa notið þjónustu Þjóðkirkjunnar hingað til, fermst, gifst og skírt þar öll sín börn enda faðir þeirra í Þjóðkirkjunni.

Þess má geta að í siðareglum presta stendur orðrétt:

„Prestur fer ekki í manngreinarálit og veitir fólki sálgæslu og aðra kirkjulega þjónustu án tillits til kynferðis, stöðu, skoðana, trúar, þjóðernis, kynþáttar eða vegna annarrar sérstöðu.

Fréttastofan hefur undir höndum tölvupóstsamskipti konu sem sendi fyrirspurn til prests í Þjóðkirkjunni þar sem hún spyr hvort börn í Fríkirkjunni geti fermst í Þjóðkirkjunni. Presturinn svarar vafningalaust:

„Við höfum ekki tekið að okkur uppfræðslu fyrir önnur trúfélög, þó kristin séu. Hér verða menn að velja hvar þeir standa."

Í næsta bréfi frá prestinum stendur:

„Fullyrðing þín um að þú getir notað alla þjónustu þjóðkirkjunnar þegar þú gengur úr söfnuðinum er einfaldlega rökleysa. Með úrsögn úr þjóðkirkjunni ert þú að afsala þér þjónustu hennar..."

Afstaða Biskupsstofu til þessa fékkst ekki í dag.

Séra Magnús Björnsson segir Digraneskirkju taka á móti öllum börnum í fermingarfræðslu - öllum sem eru skráð í Þjóðkirkjuna. Hann segist hafa bent Sigríði á að leita til sóknarprestsins í vesturbæ Kópavogs þar sem fjölskyldan býr, en dóttirin vildi fermast með skólasystkinum sínum í Digraneskirkju.

Magnús segir enn fremur að ef Fríkirkjufólk sé óánægt með þá afgreiðslu sem höfð sé sé eðlilegt að séra Hjörtur Magni komi og ræði og ræði við prestana um uppfræðslu sinna safnaðarbarna. Hann sé velkominn í kaffi hvenær sem er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×