Innlent

Nefnd skoðar verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málefnum aldraðra

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd til að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og mögulega tilfærslu verkefna sem tengjast málefnum aldraðra. Skipun nefndarinnar er í samræmi við stefnu ráðherra í öldrunarmálum, Ný sýn- nýjar áherslur þar sem boðað var að verkaskipting í öldrunarþjónustu yrði endurskoðuð með það að markmiði að bæta árangur á þessu sviði, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Nefndinni sem fjallar um málefni aldraðra er ætlað að fara yfir og skilgreina verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í öldrunarmálum og skýra betur ábyrgð við uppbyggingu og skipulag öldrunarþjónustunnar og við önnur verkefni sem tengjast öldruðum. Nefndinni er einnig falið að leggja mat á hvort flytja beri málaflokkinn í heild til sveitarfélaga eða hvort æskilegt sé að flytja einhverja verkþætti sem nú er sinnt af sveitarfélögunum til ríkisins. Miðað er við að nefndin skili tillögum sínum til heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra eigi síðar en 1. desember 2007.

Formaður nefndarinnar er Orri Hlöðversson, framkvæmdastjóri Frumherja og fyrrum bæjarstjóri í Hveragerði.

Auk nefndarinnar um málefni aldraðra hefur á vegum félagsmálaráðuneytisins einnig verið skipuð nefnd til að fjalla um verkaskiptingu um málefni fatlaðra. Sérstök verkefnastjórn mun stýra starfi beggja nefndanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×