Erlent

Mann­fallið að nálgast tvær milljónir

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn að störfum nærri Pokrovsk.
Úkraínskir hermenn að störfum nærri Pokrovsk. Getty/Maciek Musiaklek, Anadolu

Eftir tæplega fjögurra ára átök er fjöldi rússneskra og úkraínskra hermanna sem hafa fallið, særst eða horfið í átökunum frá því Rússar hófu innrás sína í Úkraínu að nálgast tvær milljónir. Rússar eru sagðir hafa misst nærri því 1.200 þúsund menn en Úkraínumenn tæplega sex hundruð þúsund.

Þetta er niðurstaða greiningar sérfræðinga bandarísku hugveitunnar Center for Strategic and International Studies, eða CSIS, sem birt var í dag.

Tölur um mannfall í átökunum hafa ávallt verið á miklu reiki og tölur sem bæði Úkraínumenn og Rússar gefa upp um mannfall hjá hvorum öðrum þykja ekki áreiðanlegar. Sérfræðingar CSIS notuðust þess í stað við tölur frá yfirvöldum í Bandaríkjunum og Bretlandi, auk annarra upplýsinga.

Í niðurstöðunum grein CSIS segir að framsókn Rússa í austurhluta Úkraínu sé frá fimmtán til sjötíu metrar á dag og að erfitt sé að finna hægari framsókn hers í stríði á síðustu hundrað árum. Miðað við þróunina hingað til geti mannfall hjá Rússum náð tveimur milljónum fyrir lok þessa árs.

Sjá einnig: Hafa náð einu og hálfu prósenti af Úkraínu á þremur árum

Sérfræðingar CSIS vísa til orða Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, frá því í desember en þar lýsti hann því yfir að rússneskir hermenn sæktu fram á allri víglínunni eins og hún leggur sig og að sigur þeirra væri vís. Þeir segja aðra hafa endurómað þessa sviðsmynd og þar á meðal háttsettir embættismenn vestanhafs.

Sé rýnt í gögnin og stöðuna á víglínunni sé fátt sem bendi til þess að sigur Rússa sé vís. Þess í stað virðist sem máttur Rússlands fari minnkandi.

Minni hreyfing en í fyrri heimsstyrjöldinni

Í niðurstöðum CSIS segir að af áðurnefndum 1,2 milljónum hermanna séu 325 þúsund fallnir. Ekkert stórveldi hafi orðið fyrir sambærilegu mannfalli í stríði frá seinni heimsstyrjöldinni. Framganga rússneskra hermanna hafi þar að auki verið einstaklega hæg. Við Pokrovsk, sem Rússar hafa reynt að ná úr höndum Úkraínumanna um langt skeið, hafi framsóknin verið hægari en hreyfingar á víglínunni í Somme í fyrri heimsstyrjöldinni.

Þá segir einnig að útlitið á efnahagssviðinu sé ekkert mikið skárra. Hagkerfi Rússlands sýni mikil veikleikamerki þó það sé líklega ekki nálægt því að falla saman. Hagvöxtur hafi dregist verulega saman og það sama eigi við bæði framleiðslu og neyslu. Verðbólga sé enn há og skortur sé á vinnuafli í Rússlandi.

Þá sé Rússland að dragast verulega aftur úr þegar kemur að tækni.

Blaðamenn AP fréttaveitunnar ræddu nýverið við menn frá Bangladess sem segjast hafa verið þvingaðir til herþjónustu í Rússlandi.

Ítrekaðar árásir á orkuver

Samhliða vandræðum Rússa á víglínunni hafa þeir einbeitt sér að dróna- og eldflaugaárásum á orkuver og innviði í Úkraínu. Kalt er á svæðinu og hefur verið um nokkuð skeið en íbúar víða um Úkraínu hafa glímt við langvarandi rafmagns- og hitaveituleysi vegna þessara árása.

Þá hafa einnig átt sér stað viðræður milli Úkraínumanna og Rússa um mögulega leið að friði. Þær viðræður hafa ekki skilað árangri hingað til.

Rússar hafa lagt áherslu á að úkraínskir hermenn hörfi frá stórum hluta Dónetsk-héraðs sem þeir halda enn. Svæðið þykir mjög víggirt en Pokrovsk og aðrar borgir eru á því.

Úkraínumenn vilja ekki láta þetta svæði af hendi og segja að með því gætu Rússar öðlast skotpall lengra inn í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Funda um frið í skugga banvænna árása næturinnar

Einn er látinn og að minnsta kosti 23 eru særðir eftir umfangsmiklar flugskeyta- og drónaárásir Rússa á Karkív og Kænugarð sem stóðu fram á morgun en borgirnar eru þær tvær stærstu í Úkraínu.

Viðurkenna loks, fyrir mistök, að Úkraínumenn hafi sökkt Moskvu

Rússneskur dómstóll hefur dæmt yfirmann í úkraínska hernum fyrir að hafa sökkt beitiskipinu Moskvu, flaggskipi Rússa á Svartahafi, árið 2022. Í úrskurði herdómstóls í borginni Moskvu, sem birtur var á síðu dómstólsins en síðan fjarlægður, var í fyrsta sinn viðurkennt að Úkraínumenn hefðu sökkt skipinu með stýriflaug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×