Upp­gjörið: Grinda­vík - Haukar 92-93 | Full­komin jóla­gjöf

Siggeir Ævarsson skrifar
Amandie Toi var öflug fyrir Hauka í kvöld og skoraði sjö sinnum fyrir utan þriggja stiga línuna.
Amandie Toi var öflug fyrir Hauka í kvöld og skoraði sjö sinnum fyrir utan þriggja stiga línuna. Vísir/Diego

Grindvíkingar tóku á móti Hauka í kvöld í síðasta leik liðanna fyrir jólafrí í Bónus-deild kvenna. Gengi Íslandsmeistara Hauka hefur verið rysjótt framan af tímabili og Emil Barja, þjálfari liðsins, viðurkenndi fúslega í viðtali fyrir leik að sigur í kvöld yrði hin fullkomna jólagjöf og honum varð að lokum að ósk sinni.

Haukar mættu vel stemmdir til leiks meðan Grindvíkingar voru frekar mjúkir í sínum aðgerðum, þá sérstaklega varnarlega. Þær Amandine Justine Toi og Tinna Alexandersdóttir fengu ítrekað opna þrista sem rötuðu flestir rétta leið en Haukar leiddu 22-25 eftir fyrsta leikhlutann.

Grindvíkingar voru öllu líflegri næstu tíu mínútur og fóru að sækja meira inn í teiginn en Isabella Ósk lét þar vel sín til taka og var stigahæst Grindvíkinga í hálfleik. Góður kafli hjá heimakonum um miðjan annan leikhluta kom muninum upp í tíu stig og þær leiddu svo með fjórum í hálfleik 48-44.

Grindvíkingar komust í 66-57 en þá kom 13-0 áhlaup frá Haukum en Grindavíkurkonur voru algjörlega heillum horfnar á þessum kafla. Justine Toi hélt áfram að láta þristunum rigna og var komin með 22 stig í lok leikhlutans en hún var hársbreidd frá 25 þegar síðasta skot leikhlutans geigaði. Staðan 71-73 fyrir lokaátökin.

Lokaleikhlutinn var afar spennandi þar sem liðin skiptust á að leiða en varnarleikur Grindvíkinga var þeirra helsti dragbítur meðan að Haukarnir gengu hart fram og gerðu Grindvíkingum erfitt fyrir sóknarmegin. Þá má líka setja spurningamerki við ákvarðanatöku Grindvíkinga undir lokin. Þær voru mikið að flýta sér og sættu sig við erfið skot.

Leikurinn endaði hnífjafn en slök lokasókn Grindvíkinga skilaði þeim lélegu skoti sem klikkaði og Haukar fögnuðu að lokum tæpum sigri.

Atvik leiksins

Hér má klárlega tína til lokasókn Grindavíkur. Fjórtán sekúndur á klukkunni og munurinn eitt stig. Þær Abby Beeman og Ellen Nyström ræða saman fyrir innkastið og ákveða að skipta, Abby tekur boltann inn og Ellen tekur hann svo upp.

Þó svo að Ellen sé örugg á boltanum er Abby mögulega fljótasti leikmaður deildarinnar. Það tók um það bil helminginn af þessum fjórtán sekúndum fyrir Grindvíkinga að koma boltanum upp völlinn og úr varð ráðleysisleg sókn.

Að vísu fékk Abby ágætis skot að lokum en þetta var ekki það sem Lalli teiknaði upp í leikhléinu. 

Stjörnur og skúrkar

Hjá Grindavík var Ellen Nyström öflug og skoraði 23 stig. Abby Beeman kom næst með 22. Isabella Ósk átti góða spretti og skilaði 14 stigum og 14 fráköstum.

Besti leikmaðurinn á vellinum í kvöld var þó án vafa Amandine Justine Toi sem skoraði 28 stig og setti niður sjö þrista.

Krystal-Jade Freeman var lengi í gang og var á kafla með jafn mörg stig og villur en endaði með 22 stig og 13 fráköst.

Dómarar

Sigmundur Már Herbertsson, Eggert Þór Aðalsteinsson og Stefán Kristinsson dæmdu leikinn í kvöld. Báðir þjálfarar voru á köflum brjálaðir út í þá og fengu báðir aðvörun en sluppu með tæknivillurnar.

Mér fannst þeir báðir hafa á köflum töluvert til síns máls, ég hef séð betur dæmda leiki en þennan en þetta var samt engin hörmung.

Stemming og umgjörð

Miðvikudagskvöld eiga það til að vera erfið körfuboltakvöld fyrir áhorfendur og ekki skánar það sjö dögum fyrir jól. Það var fámennt í stúkunni í kvöld og stemmingin í takt við það. 

Ekkert hægt að kvarta yfir umgjörðinni í Grindavík, alltaf allt til fyrirmyndar á þeim bænum að vanda og „heimsendingin“ á pizzunni upp í blaðamannastúku var punkturinn yfir i-ið.

Kynnir kvöldsins, Davíð Arthur, mun þó mögulega kvarta þar sem míkrafónninn virkaði ekki og hann þurfti að kalla leikmannakynningarnar upp!

Viðtöl

Lalli: „Bara ekki nógu sterkar á svellinu“

Þessi mynd er ekki úr leik kvöldsins en samt svo viðeigandiVísir/Vilhelm

Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var ósáttur með spilamennsku sinna kvenna í kvöld og í raun bara dauðfeginn að sleppa með eins stigs tap.

„Ég er svolítið ánægður með það að tapa bara með einu stigi. Fannst við vera voðalega „soft“ á báðum endum vallarins. Vorum ekki að frákasta nógu vel. Aðeins seinar í vörninni. Ýmislegt sem fór úrskeiðis svona við fyrstu sýn, bara ekki nógu sterkar á svellinu.“

Haukar komust ítrekað í mjög opin skot þá sérstaklega fyrir utan þriggjastiga línuna og Grindavík náði aldrei að stilla sig almennilega af, hvorki í vörn né sókn.

„Þær voru kannski svolítið í fyrri hálfleik að skora úr því sem við vorum að gefa þeim. Töluðum um það að pikka það upp. Haukar náðu svolítið að keyra upp hraðann, sem þær eru mjög góðar í því. Sóknarlega í vandræðum með að stilla upp því þær voru að ýta okkur. Skrítin lína en samt alveg einhver lína. Þeir voru að leyfa alveg svipað báðumegin.“

„Við þurftum að bíta aðeins frá okkur í restina til að geta klárað þetta og gerðum það bara alls ekki. Fengum hérna síðasta skotið. Vorum með annað „play“ og þær ýttu okkur út úr því. Enduðum á að fá fínasta flotskot frá Abby sem hefði alveg getað farið ofan í. Þetta var alls ekki nógu gott. Svekkjandi að fara inn í jólafríið með þessum leik vitandi það að við áttum helling inni. Ef við hefðum spilað okkar leik trúi ég því að við hefðum bara unnið þetta.“

Eins og Lalli kom inn á þá er jólafrí framundan sem er í lengri kantinum þetta árið miðað við síðustu tímabil. Það verður þó vesen að æfa af krafti.

„Vesen að það er svo mikið af útlendingum, þetta fer allt heim og eitthvað! Það verða eins miklar æfingar og mögulegt er en það verður alls ekki nógu gott.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira