Fótbolti

Tómas á toppnum eftir sigur á skoska risanum

Sindri Sverrisson skrifar
Tómas Bent Magnússon í baráttunni í toppslagnum við Celtic á Celtic Park í dag.
Tómas Bent Magnússon í baráttunni í toppslagnum við Celtic á Celtic Park í dag. Getty/Alan Harvey

Tómas Bent Magnússon og félagar í liði Hearts hafa nú unnið bæði Glasgow-veldin, Celtic og Rangers, á útivelli í skosku úrvalsdeildinni í fótbolta í vetur.

Tómas lék allan leikinn á miðjunni fyrir Hearts í dag þegar liðið vann 2-1 sigur gegn Celtic og það á Celtic Park.

Hann átti meðal annars skalla í seinni hálfleik sem danski landsliðsmarkvörðurinn Kasper Schmeichel hjá Celtic sá þó við.

Hearts hafði nánast ekkert skapað fram á við þegar Claudio Braga kom gestunum yfir undir lok fyrri hálfleiks, og þögn sló á mannskapinn á Celtic Park.

Gestirnir tvöfölduðu svo forskotið þegar Oisin McEntee skoraði með frábærum skalla á 64. mínútu.

Í uppbótartíma náði Kieran Tierney að minnka muninn fyrir Celtic en þar við sat.

Eyjamaðurinn Tómas, sem Valur seldi til Hearts í sumar, lék eins og fyrr segir allan leikinn. Hann er áfram með Hearts á toppi skosku úrvalsdeildarinnar og nú þremur stigum á undan Celtic. 

Sigurinn var langþráður fyrir Hearts sem eftir magnaða byrjun á tímabilinu hafði ekki unnið í síðustu fjórum leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×