Sport

Ís­land lauk keppni á EM

Valur Páll Eiríksson skrifar
Snæfríður Sól Jórunnardóttir, Birgitta Ingólfsdóttir, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Vala Dís Cicero syntu síðasta sund Íslands á mótinu i morgun.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir, Birgitta Ingólfsdóttir, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Vala Dís Cicero syntu síðasta sund Íslands á mótinu i morgun.

Íslenska sundlandsliðið lauk keppni á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Lublin í Póllandi í morgun. Mótið klárast síðar í dag.

Hólmar Grétarsson synti 400 metra fjórsund í undanrásum og kláraði í bakkann á 4:18.91, örlitlu frá sínu persónulega meti í greininni, og hafnaði í 27. sæti.

Síðasta sund íslenska liðsins var 4x50 metra fjórsund og boðsund hjá stelpunum. Þar syntu þær Snæfríður Sól Jórunnardóttir, Birgitta Ingólfsdóttir, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Vala Dís Cicero. Þær syntu á 1:50.77, rétt rúmri sekúndu frá Íslandsmetinu í greininni, og höfnuðu í 14. sæti.

Þar með hefur landsliðið lokið keppni. Samtals tókst íslenska liðinu að setja fjögur ný Íslandsmet, tvö þeirra í boðsundi og tvö í einstaklingsgreinum.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir setti tvö ný met, annarsvegar í 200 metra skriðsundi þar sem hún bætti sitt eigið met í undanúrslitum greinarinnar, og hins vegar í 50 metra skriðsundi þar sem hún synti fyrsta sprett í 4x50 metra skriðsundi kvenna, en þar setti sveitin einnig nýtt met í þeirri grein.

Síðan var það 4x50 metra blandað skriðsund þar sem sveit Íslands setti einnig nýtt Íslandsmet.

Liðið heldur nú heim á leið en næsta stórmót í sundi er strax í janúar. Reykjavík International Games fer fram í Laugardalnum 23. - 25. janúar næst komandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×