Innlent

Vilja halda leiðbeinandanum á­fram bak við lás og slá

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn hafði starfað á Múlaborg í tvö ár þegar hann var handtekinn.
Maðurinn hafði starfað á Múlaborg í tvö ár þegar hann var handtekinn. Vísir/Anton Brink

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun krefjast áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir manni sem grunaður er um kynferðisbrot í starfi sínu sem leiðbeinandi á leikskólanum Múlaborg. Lögregla rannsakar nú ábendingar um brot gegn fleiri börnum á leikskólanum og segir rannsókn miða vel.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Maðurinn var handtekinn þann 12. ágúst vegna gruns um kynferðisbrot gegn barni á leikskólanum og hefur tvívegis verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Gæsluvarðhald yfir honum rennur að óbreyttu út í dag. 

Vísir greindi frá því á dögunum á foreldi annars barns á leikskólanum hafi tilkynnt grun um kynferðisbrot gegn barni sínu til lögreglu.

Lögregla hefur hingað til ekki viljað staðfesta fregnir af því en segir nú að verið sé að skoða aðrar ábendingar sem hafa borist. Ríkisútvarpið hefur eftir Bylgju Hrönn Baldursdóttur, aðstoðarlögregluþjóni hjá kynferðisbrotadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að ábendingarnar snúi að Múlaborg. Hún geti ekki tjáð sig um það hvort ábendingar hafi borist um möguleg brot utan Múlaborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×