Innlent

Gjör­ó­líkt gengi frá kosningum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir eru formenn flokkanna sem mynda ríkisstjórn.
Inga Sæland, Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir eru formenn flokkanna sem mynda ríkisstjórn. Vísir/Einar

Samfylkingin mælist með 31,6 prósenta fylgi í nýrri könnun Maskínu og hefur ekki mælst hærri í könnunum fyrirtækisins. Fylgið er helmingi meira en í kosningunum fyrir níu mánuðum á meðan fylgi Flokks fólksins hefur helmingast.

Maskína kannar fylgi flokkanna mánaðarlega og eru litlar breytingar á fylginu á milli júlí og ágúst. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur bæta lítillega við sig en fylgi Viðreisnar stendur í stað. Fylgi flokksins hefur verið langstöðugast ríkisstjórnarflokkanna frá kosningum þegar flokkurinn fékk 15,8 prósenta fylgi.

Fylgi Miðflokksins og Framsóknarflokksins minnkar lítillega, er nú 9,6 prósent og 6,5 prósent. Píratar, Sósíalistar og Vinstri græn fengu engan þingmann kjörinn í kosningunum í nóvember. Könnunin bendir til þess að Vinstri græn séu aðeins að sækja í sig veðrið, nú með 4,2 prósenta fylgi. Fylgi Pírata og Sósíalistaflokksins minnkar lítillega.

Segja má að fylgi Flokks fólksins hafi hrunið síðan í kosningunum þegar flokkurinn fékk 13,8 prósent. Hann mælist nú með 6,3 prósent en margt bendir til þess að skoðanakannanir undanfarinna ára vanmeti fylgi flokksins miðað við niðurstöður kosninga.

Að neðan má sjá línurit sem sýnir þróun á fylgi flokkanna í könnunum Maskínu frá því í kosningunum árið 2021.


Tengdar fréttir

Ljóst að stjórnarandstaðan græddi ekki á „kjarnorkuákvæðinu“

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, segir nýjar kannanir sýna það greinilega að kjósendum líki það vel að sjötugustu og fyrstu grein þingskaparlaga, sem sumir hafa kallað „kjarnorkuákvæðið“, hafi verið beitt af stjórnarflokkunum til að ljúka umræðum um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Miðflokkur rýkur upp en Sjálfstæðisflokkur dalar

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 17,3 prósent í nýjustu könnun Maskínu og lækkar þar með um 1,6 prósent. Samfylkingin bætir við sig frá síðustu könnun Maskínu og mælist nú með 28,1 prósenta fylgi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×