Sport

Ís­lensku stelpurnar flugu inn í úr­slitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lilja Katrín Gunnarsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir faðmast eftir frábæran árangur en þær komust báðar í úrslit á heimsbikarmóti á fleiri en einu áhaldi.
Lilja Katrín Gunnarsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir faðmast eftir frábæran árangur en þær komust báðar í úrslit á heimsbikarmóti á fleiri en einu áhaldi. FSÍ

Íslensku fimleikakonurnar Lilja Katrín Gunnarsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir eru báðar komnar í úrslit á heimsbikarmóti í áhaldafimleikum í Búlgaríu og það á fleiru en einu áhaldi.

Lilja Katrín, sem er að keppa á sínu fyrsta heimsbikarmóti, komst í úrslit í stökki og gólfi auk þess að vera hársbreidd frá því að komast líka í úrslit á tvíslá.

Lilja framkvæmdi tvö frábær stökk sem tryggðu henni öruggt sæti í úrslitum. Hún sýndi einnig glæsilega tvísláaræfingu og var hársbreidd frá því að komast í úrslitin þar en hún er fyrsti varamaður inn.

Í dag framkvæmdi hún afar vel heppnaða sláaræfingu sem skilaði henni tólfta sæti. Ekki nóg með það, þá sýndi hún einnig örugga og flotta gólfæfingu sem tryggði henni sæti í úrslitum á morgun.

Thelma, sem er ein af reyndustu keppendum okkar, stóð sig einnig frábærlega í dag og komst í úrslit á gólfi og á jafnvægisslá.

Thelma framkvæmdi magnaða gólfæfingu sem skilaði henni inn í úrslitin á sannfærandi hátt en hún er fyrst inn með 13.050 stig. Það eru ekki einu úrslitin hjá henni Thelmu, heldur framkvæmdi hún einnig frábæra sláaræfingu sem skilaði henni 12.350 stig og sæti í úrslitunum á sunnudaginn.

Tvísláin gekk ekki alveg eins og Thelma óskaði en hún framkvæmdi engu að síður flotta tvísláaræfingu með háu erfiðleikagildi.

„Ég er virkilega stoltur af þeirra frammistöðu og spenntur fyrir úrslitunum,“ sagði Þorgeir Ívarsson, landsliðsþjálfari kvenna, í frétt á heimasíðu fimleikasambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×