Erlent

Töldu að enginn ætti að deyja í á­rásunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikill eldur kviknaði í búðunum og vitni segja sprengjubrotum hafa rignt þar yfir.
Mikill eldur kviknaði í búðunum og vitni segja sprengjubrotum hafa rignt þar yfir. AP/Jehad Alshrafi

Loftárásir Ísraelsmanna í Rafah á Gasaströndinni eru nú sagðar hafa leitt til dauða 45 manna í tjaldbúðum. Árásirnar hafa verið harðlega gagnrýndar í dag en Ísraelar hafa sakað Hamas-liða um að kveikja eld sem dró fólkið til dauða.

Rúmlega helmingur hinna látnu er sagður vera konur, börn og gamalmenni.

Ráðamenn í Evrópu og víðar hafa gagnrýnt árásirnar harðlega í dag. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði að Ísraelar þyrftu að hætta hernaði sínum í Rafah.

Guido Crosetto, varnarmálaráðherra Ítalíu, segir að árásir sem þessar muni hafa slæmar afleiðingar fyrir Ísraela og til langs tíma. Hann sagði Ísraela vera að dreifa hatri sem muni festa rætur og hafa afleiðingar fyrir börn þeirra og barnabörn.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, og Josep Borell, yfirmaður utanríkismála hjá ESB, slógu á svipaða strengi og hafa kallað eftir því að Ísraelar fylgi skipunum Alþjóðasakamáladómstólsins.

Sjá einnig: Ísrael eigi að láta af öllum hernaðaraðgerðum í Rafah

Ráðamenn í Ísrael hafa lýst Rafah sem einu af síðustu vígum Hamas og segjast þurfa að bjarga gíslum sem eiga að vera þar í haldi.

Árásirnar voru gerðar í kjölfar þess að Hamas-liðar skutu eldflaugum að Tel Aviv, frá Rafa, fyrr um daginn.

Forsvarsmenn ísraelska hersins halda því enn fram að árásirnar hafi verið gerðar á bækistöð Hamas-samtakanna og að tveir af leiðtogum þeirra hafi verið felldir. Þeir segja að verið sé að rannsaka yfirlýsingar um dauðsföll óbreyttra borgara.

Áður en árásirnar voru gerðar var það metið svo að engir óbreyttir borgarar ættu að falla í árásunum.

Herinn hefur sagt, samkvæmt Reuters, að Hamas-liðar hefðu mögulega kveikt eld sem hefði banað fólkinu í tjaldbúðunum.

Í nýlegri yfirlýsingu frá hernum segir að árásirnar hafi ekki verið gerðar á svæði sem hafi áður verið skilgreint sem öruggt svæði fyrir fólk sem hefur þurft að flýja heimili sín vegna innrásar Ísraela á Gasaströndina.

AP fréttaveitan segir að heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem stýrt ef af Hamas, segir nú að rúmlega 36 þúsund manns hafi fallið í átökunum. Ekki er greint á milli óbreyttra borgara og vígamanna í þessum tölum.

Í samtali við Reuters segir fólk sem lifið eldhafið af að þau hafi verið að fara að sofa þegar loftárásirnar voru gerðar. Ein kona sagði að fyrst hefðu þau heyrt háværar sprengingar og svo hafi eldar logað alls staðar í kringum þau.

„Öll börnin byrjuðu að öskra. Hljóðið var ógnvænlegt,“ sagði Umm Mohamed Al-Attar. Hún sagði sprengjubrotum hafa rignt yfir tjaldbúðirnar.

Einn maður sem ræddi við blaðamann AP og kom að björgunarstöfum í tjaldbúðunum sagði eldhafið hafa verið ótrúlegt. Fólk hefi verið dregið úr búðunum í hræðilegu ástandi.

„Við tókum út börn sem voru í bútum. Við tókum út ungt og eldra fólk,“ sagði Mohammed Abuassa.

Rafah er syðsta borg Gasastrandar en nærri því helmingur rúmlega tveggja milljóna íbúa Gasastrandarinnar hafa flúið þangað á undanförnum mánuðum. Hundruð þúsunda hafa svo flúði borgina á undanförnum vikum, eftir að árásir Ísraela hófust þar, en hundruð þúsunda eru þó þar enn og búa við mjög slæmar aðstæður.


Tengdar fréttir

Hryllingur í Rafah eftir hefndaraðgerðir

Að minnsta kosti 35 voru drepnir í árásum Ísraela á Rafah-borg í suður-Gaza. Loftárásirnar eru hefndaraðgerðir Ísraela eftir að Hamas-samtökin gerðu fyrstu eldflaugaárásir síðan í janúar á Tel Aviv í morgun. Myndbönd á samfélagsmiðlum sýna mikinn hrylling.

Halda áfram árásum á Rafah

Í það minnsta þrjátíu manns hafa látið lífið í árásum Ísraelsmanna á Gasasvæðinu síðan alþjóðadómstóllinn í Haag skipaði Ísrael að stöðva innrás sína á Rafah á sunnanverðri Gasaströndinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×