Upp­gjör og við­töl: KA - Vestri 0-1 | Vestri með sigur­mark í uppbótatíma

Árni Gísli Magnússon skrifar
Nýliðar Vestra fögnuðu fyrsta sigrinum í efstu deild í dag. 
Nýliðar Vestra fögnuðu fyrsta sigrinum í efstu deild í dag.  Vísir/Hulda Margrét

Vestri er komið á blað í efstu deild eftir 1-0 sigur á KA á Akureyri í dag en Jeppe Gertsen skoraði eina mark leiksins á þriðju mínútu uppbótartíma.

Leikurinn fór mjög rólega af stað og fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik. Gunnar Jónas Hauksson komst í gott færi eftir góðan undirbúning frá Andra Rúnari Bjarnasyni eftir rúmlega hálftíma leik en varnarmaður KA henti sér fyrir skotið í tæka tíð.

Sveinn Margreir Hauksson gerði frábærlega undir blálok hálfleiksins þegar hann lék á varnarmann og komst einn gegn Karl Eskelinen í marki Vestra en skot hans fór rétt fram hjá og því markalaust í hálfleik.

Seinni hálfleikur bauð svo sem ekki á mikla skemmtun heldur en Vestra menn voru nokkuð varkárir í nálgun sinni á meðan KA gekk erfiðlega að opna vel skipulagt lið þeirra vestfirsku.

Tarik Ibrahimagic var óheppinn að koma gestunum ekki í forystu eftir tæpar 70 mínútur þegar hann fór illa með varnarmenn KA en Jajalo varði frá honum í dauðafæri.

KA sótti stíft undir lok í leiks í leit að sigurmarki en komust lítið áleiðis. Á þriðju mínútu uppbótartíma fengu Vestramenn hornspyrnu og eftir smá klafs í teignum endaði boltinn hjá Jeppe Gertsen sem setti boltann laglega í fjærhornið og skoraði þar með fyrsta mark Vestra í efstu deild og tryggði þeim um leið sinn fyrsta sigur.

Atvik leiksins

Sigurmark leiksins sem Jeppe Gertsen skorar í uppbótartíma sem er jafnframt fyrsta mark Vestra í efstu deild og tryggði þeim sinn fyrsta sigur í efstu deild. Atvikin verða ekki mikið stærri.

Stjörnur og skúrkar

Jeppe Gertsen er auðvitað ein af stjörnum leiksins en hann vinnur leikinn fyrir Vestra með marki í uppbótartíma.

Fatai Gbadamosi var að mínu mati besti maður vallarsins en það er ógjörningur að eiga við hann á miðjunni. Klókur, passar vel upp á boltann, skynsamur og finnur góð svæði til að dreifa boltanum.

Þá var Benedikt Warén mjög frískur sóknarlega og átti góðan leik.

KA er með eitt stig eftir þrjá leiki sem allir hafa verið leiknir heima við menn fyrir norðan ekki sáttir. Rodri er hefur ekki gert mikið fyrir liðið í þessum leikjum og bakverðir liðsins skila litlu sem engu fram á við, Ingimar Stöle reynir en lítið kemur út úr því.

Annars er KA liðið í heild skúrkur dagsins og leikmenn vita sjálfir að þeir geta gert betur.

Dómarinn

Ívar Orri átti ágætis leik í dag en leikurinn var ekki sá erfiðasti að dæma. Nokkur gul spjöld fóru á loft en áttu kannski ekki öll rétt á sér.

Stemning og umgjörð

Það var rjómablíða á Akureyri þegar flautað var til leiks í dag og sólin skein sínu skærasta. Nokkuð rok var til staðar en ekkert til að kvarta of mikið yfir.

Það heyrðist nánast ekki neitt úr stúkunni fyrstu 20 mínúturnar eða svo og heyrðist nær allt sem leikmenn sögðu alla leið inn í Júdósalinn góða í KA heimilinu þar sem blaðamenn hafa aðsetur. Það lifnaði þó aðeins yfir fólki þegar leið á fyrri hálfleik og var það frekar hópur stuðningsmanna Vesta sem voru mættir alla leið norður sem létu meira í sér heyra heldur en heimamenn. Það ætlaði svo allt um koll að keyra Vestramegin í stúkunni þegar Jeppe Gertsen skoraði sigurmarkið og tryggði dramatískan sigur.

Viðtöl

„Ég ætla ekkert að tala í kringum hlutina, við þurfum bara að gera betur”

Hallgrímur Jónasson var svekktur með niðurstöðu leiks.vísir/Hulda Margrét

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, segir sitt lið einfaldlega þurfa að gera betur eftir 1-0 tap gegn Vestra á heimavelli en KA er einungis með eitt stig eftir þrjár umferðir Bestu deildarinnar.

„Bara svekkelsi. Við spiluðum því miður ekki nógu góðan leik í dag en ég er meira svekktur yfir frammistöðunni en að hafa fengið mark á okkur á 92. mínútu því að frammistaðan hefur verið fín fram að þessu en þetta hefur bara ekki verið nógu gott þannig við þurfum bara að gera betur í næsta leik og standa saman núna. Nú eru komnir þrír leikir sem við erum ekki alveg sáttir með niðurstöðuna og stigin. Að fá eitt stig eftir þrjá leiki er bara ekki nógu gott, við förum bara á æfingasvæðið að vinna í okkar málum og verðum klárir á fimmtudaginn.”

Leikur KA liðsins var hægur og fátt gekk upp sóknarlega.

„Við vorum ekki að finna svæðin, við erum of staðir, hlaupum ekki nógu djúpt fyrir hvorn annan þannig þetta verður alltof hægt og svo bara gerði Vestri vel. Við óskum Vestra til hamingu, flott hjá þeim, þeirra fyrsti sigur hérna í úrvalsdeild en þetta var bara of hægt. Við vorum of hugmyndasnauðir og svo þegar við komumst í góðar stöður náðum við mjög sjaldan að koma boltanum fyrir markið, ég held að það hafi gerst einu sinni í seinni hálfleik og það kom hætta úr því.”

„Hlutirnir virðast aðeins vera detta á móti okkur þessa dagana og þeir fá horn á 92. Mínútu og boltinn dettur fyrir dauðan mann og þeir skora og fótbolti getur bara verið grimmur.”

Eftir fyrstu tvo leikina talaði Hallgrímur um að frammistaðan hafi verið góð þrátt fyrir slæm úrslit. Í dag fór frammistaðan þó niður á við og úrslitin eru enn slæm.

„Frammistaðan var bara ekki nógu góð og við eigum bara eftir að fara aðeins í það. Var erfitt að láta boltann ganga út af því það var vindur? Ég veit það ekki en við þurfum bara að gera betur, ég ætla ekkert að tala í kringum hlutina, við þurfum bara að gera betur. Nú stöndum við saman, gerum þetta, og mætum klárir á fimmtudaginn.”

Hallgrímur var að lokum spurður hvort félagið ætli sér að sækja leikmann eða leikmenn fyrir lok félagaskiptagluggans.

„Nei, ekki af mér vitandi”, svaraði Hallgrímur einfaldlega.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira