Sport

Sló elsta heims­metið í gær og náði pabba sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Litháinn Mykolas Alekna náði ekki bara föður sínum heldur einnig elsta heimsmetinu með risakasti sínu í gær.
Litháinn Mykolas Alekna náði ekki bara föður sínum heldur einnig elsta heimsmetinu með risakasti sínu í gær. AP/Ashley Landi

Litháinn Mykolas Alekna sett í gær nýtt heimsmet í kringlukasti og sló um leið elsta heimsmet karla í frjálsum íþróttum. Honum tókst það sem föður hans tókst ekki en komst svo nálægt í upphafi aldarinnar.

Þessi 21 árs strákur kastaði kringlunni 74,35 metra á kastmóti í Oklahoma í Bandaríkjunum. Hann er nemandi í University of California.

Metkastið hjá Alekna mældist fyrst 74,41 metrar en sú tala var síðan leiðrétt í 74,35 samkvæmt frétt hjá World Athletics. Það á síðan eftir að staðfesta heimsmetið endanlega.

Kastsería Alekna var frábær en öll sex köstin hans voru yfir sjötíu metra. Hann byrjaði á persónulegu meti með því að kasta 72.21 metra. Hann náði síðan fjórða besta kasti sögunnar í fjórða kasti (72,89 metrar). Heimsmetið hans kom síðan í fimmta kastinu.

Gamla heimsmetið í kringlukasti var frá árinu 1986 og var því orðið næstum því 38 ára gamalt. Það átti Austur-Þjóðverjinn Jürgen Schult í allan þennan tíma eftir að hann kastaði kringlunni 74,08 metra 6. júní 1986.

Þetta var líka elsta heimsmet í karlaflokki þar til í gær. Nú er elsta metið í eigu Sovétmannsins Yuriy Sedykh sem kastaði sleggjunni 86,74 metra í ágúst 1986.

Alekna gerði meira en að bæta heimsmetið því hann sendi einnig föður sinn niður í þriðja sætið yfir lengstu kringluköst sögunnar.

Faðir hans, Virgilijus, hafði verið sá sem komst næst gamla heimsmetinu þegar hann kastaði kringlunni 73,88 metra árið 2000. Virgilijus varð tvisvar sinnum Ólympíumeistari og sonur hans er líklegur til að feta í fótspor hans á leikunum í París í sumar.

Mykolas Alekna hefur þegar unnið tvenn verðlaun á heimsmeistaramótum. Hann vann silfur á HM í Eugene 2022 og brons á HM í Búdapest í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×