Bíó og sjónvarp

Verður aftur lag­lega ljóskan Elle Woods

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Reese Witherspoon varð sannkölluð ofurstjarna þegar Legally Blonde sló í gegn.
Reese Witherspoon varð sannkölluð ofurstjarna þegar Legally Blonde sló í gegn. Amy Sussman/Getty

Bandaríska leikkonan Reese Witherspoon hyggst bregða sér aftur í eitt af hennar langþekktustu hlutverkum, lögfræðingsins Elle Woods sem hún gerði ódauðlega í Legally Blonde kvikmyndunum. Í þetta skiptið verður um að ræða sjónvarpsþætti.

Þetta kemur fram í umfjöllun Deadline þar sem segir að Amazon MGM kvikmyndaverið hafi þáttaröðina í bígerð, sem verður svokölluð hliðarsaga (e. spinoff) frá myndunum. Fyrsta myndin kom út árið 2001 og gerði Reese Witherspoon að sannkallaðri ofurstjörnu.

Myndin fjallar um Elle Woods, einkar glæsilega píu sem er skyndilega sagt upp af kærastanum. Ástæðan sú að hann er á leiðinni í lögfræðinám í Harvard og telur hana of vitlausa fyrir sig. Elle sýnir kauða hinsvegar í tvo heimana, skráir sig sjálf í lögfræðinám í Harvard og slær einfaldlega í gegn. Myndin sló í gegn svo um munar og kom út framhaldsmynd árið 2003. Í þeirri mynd bætir Elle Woods um betur og tekur til starfa á bandaríska þinginu í Washington D.C.

Vilja gera fleiri en eina seríu

Í umfjöllun Deadline kemur fram að fátt sé vitað um væntanlega sjónvarpsþáttaseríu að svo stöddu. Hún verður skrifuð af Josh Schwartz og Stephanie Savage sem þekktust eru fyrir að hafa skrifað handritið að Gossip Girl þáttunum.

Þá kemur fram að Amazon hafi í huga að gera fleiri en eina seríu tileinkaða Legally Blonde. Þá hefur þriðja Legally Blonde myndin verið í bígerð um nokkurra ára skeið og vinna þau Mindy Kaling og Dan Goor að handriti þeirrar myndar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×