Sport

Handa­hlaup og handstaða ekkert mál fyrir kasólétta konu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir er komin langt í meðgöngunni en hættir ekkert að mæta í lyftingarsalinn.
Anníe Mist Þórisdóttir er komin langt í meðgöngunni en hættir ekkert að mæta í lyftingarsalinn. @anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir á að eignast sitt annað barn í byrjun maí en það stoppar ekki okkar konu við að stunda CrossFit íþróttina af krafti.

Anníe Mist hefur birt reglulega myndbönd af sér í lyftingasalnum í vetur og nú í nýloknu CrossFit Open kláraði hún alveg tvær fyrstu vikurnar og þurfti síðan aðeins að stilla sig af í þriðju og síðustu vikunni.

Það er magnað að sjá Anníe með sjö mánaða kúlu gangandi um á höndum og gerandi handahlaup eins og ekkert sé eðlilegra.

„Líður vel og er þakklát fyrir það að geta hreyft mig og vera sterk,“ skrifaði Anníe í nýlegri færslu sinni.

„Komin 33 vikur á leið og hef nóg að gera. Er að flytja og finn aðeins fyrir álaginu en æfi skynsamlega og aðlaga mig af stöðunni sem gerir mig sterkari,“ skrifaði Anníe.

Það má sjá hana á hlaupahjólinu, gangandi um á höndum og að lyfta þungum þyngdum.

Stuttu síðar birti Anníe myndband af sér gerandi handahlaup út í vorsólinni.

Þar sagði hún að ein æfingin í þriðju vikunni af CrossFit Open hafi ekki verið skynsamlegt fyrir hana að framkvæma og því hafi hún orðið að gera æfinguna á annan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×