Fótbolti

Fær­eyjar skoruðu fjögur og stjörnur Noregs gerðu ekkert

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pætur var frábær í kvöld.
Pætur var frábær í kvöld. Michal Cizek/Ritzau Scanpix

Færeyjar unnu 4-0 útisigur á Liechtenstein í vináttulandsleik karla í knattspyrn. Þá tapaði Noregur gegn Tékklandi á Ullevaal-vellinum í Osló.

Við Íslendingar þekkjum Liechtenstein vel eftir að hafa unnið þjóðina í tvígang í undankeppni EM 2024. Eflaust hefur Liechtenstein hugsað sér gott til glóðarinnar þegar samið var um leik við Færeyjar, annað kom þó á daginn.

Pætur Petersen, leikmaður KÍ Klaksvík og fyrrverandi leikmaður Lyngby, kom Færeyjum yfir strax á 3. mínútu. Hann var svo aftur á ferðinni í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Jóan Símun Edmundsson, fyrrverandi leikmaður KA, með stoðsendinguna og staðan 0-2 í hálfleik.

Pætur lagði svo upp þriðja mark Færeyinga þegar aðeins fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Adrian Justinussen, framherji danska B-deildarliðsins Hillerød, með markið. Arnbjørn Svensson bætti svo fjórða marki Færeyja við undir lok leiks, lokatölur 0-4.

Noregur stillti upp ógnarsterku liði gegn Tékklandi þar sem bæði Martin Ødegaard og Erling Braut Håland voru í byrjunarliðinu. Það var hins vegar Oscar Bobb, ungstirni Manchester City, sem kom Noregi yfir á 20. mínútu. Gestirnir svöruðu með tveimur mörkum og unnu 2-1 útisigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×