Erlent

Þriðja flug­ferð Starship heppnaðist vel

Samúel Karl Ólason skrifar
GIfp-2Ya0AAHUJF
SpaceX

Starfsmenn SpaceX stefna að þriðja tilraunaskoti Starship geimfarsins í dag. Síðustu tvær tilraunir með þetta risastóra geimfar og eldflaug hafa endað með stórum sprengingum. Skotglugginn svokallaði opnast klukkan hálf eitt að íslenskum tíma, eða hálf átta að morgni að staðartíma.

Uppfært 13:40 Geimskotið heppnaðist vel. Starship fór út í geim og eldflaugin sneri við til jarðar. Eldflaugin lenti þó í Mexíkóflóa á mun meiri hraða en til stóð. Þá slitnaði sambandi við Starship þegar geimfarið var að hrapa aftur til jarðar undan ströndum Ástralíu.

Geimfarið á að taka á loft frá skotpalli SpaceX í Texas, komi veður ekki í veg fyrir geimskotið. Ólíklegt þykir að veðrið muni þvælast fyrir en töluverð þoka er nú við skotpallinn.

Eldflaugin á svo að líkja eftir lendingu á Mexíkóflóa. Það felur í sér að eldflaugin mun reyna að hægja á sér yfir Mexíkóflóa og haga sér eins og hún væri að lenda á jörðinni. Hún mun þó skella í sjónum. Geimfarið sjálft mun lenda í sjónum í Indlandshafi.

Starship-kerfið samanstendur af gríðarstórri eldflaug og af um fimmtíu metra löngu geimfari sem ber nafnið Starship. Bæði stig kerfisins eru hönnuð til að geta verið notuð mjög hratt aftur, eins og SpaceX hefur gert með Falcon-eldflaugarnar.

Saman sett er stæðan 120 metrar á hæð. Super Heavy eldflaugin er búin 33 Raptor hreyflum sem brenna metan og fljótandi súrefni.

Beina útsendingu má svo finna hér að neðan, þegar hún fer í gang, um hálftíma áður en skotglugginn opnar. Niðurtalningin gæti stöðvaðst þegar fjörutíu sekúndur eru eftir, en að er iðulega gert og þarf ekki endilega að eitthvað sé að. Í þessu tilfelli er mögulegt að tækifærið verði notað til að bíða eftir hagstæðari vindum.

Starship á að vera grunnurinn að framtíð SpaceX. Með því að þróa fullkomlega endurnýtanlega eldflaug og geimfar gæti fyrirtækið dregið enn frekar úr kostnaði við geimskot og framkvæmt þau mun oftar en samkeppnisaðilar. Nota á Starship og Super Heavy til að flytja menn og birgðir til tunglsins og jafnvel lengra út í geim með mun minni tilkostnaði en aðrir geta gert.

Á vef Ars Technica segir að geimskot sem framkvæmd eru við sólarupprás valdi iðulega mikilli ljósasýningu í háloftunum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×