Sport

Sá besti í heimi tapaði ó­trú­lega óvænt: „Þetta er klikkað“

Sindri Sverrisson skrifar
Luca Nardi og Novak Djokovic mættust í dag en 122 sæti skilja þá að á heimslistanum.
Luca Nardi og Novak Djokovic mættust í dag en 122 sæti skilja þá að á heimslistanum. Getty/Matthew Stockman

Serbinn Novak Djokovic, besti tennisspilari heims, tapaði með ótrúlega óvæntum hætti í þriðju umferð á Indian Wells mótinu í tennis í dag.

„Þetta er klikkað,“ sagði hinn ítalski Luca Nardi en hann er aðeins tvítugur og í sæti 123 á heimslistanum.

Það sem meira er þá hafði Nardi tapað í undankeppni mótsins, gegn Belganum David Goffin, en fengið sæti eftir að annar keppandi dró sig úr keppni.

Nardi vann Djokovic 6-4, 3-6 og 6-3, en Serbinn hefur unnið 24 risamót á ferlinum og aldrei nokkurn tímann tapað gegn svo lágt skrifuðum keppanda, á móti af þessari stærðargráðu.

„Ég hef ekki hugmynd [um hvernig ég hélt ró minni]. Ég held að þetta sé kraftaverk, því ég er bara tvítugur strákur og var að vinna Novak,“ sagði Nardi.

Djokovic, sem er 36 ára gamall, féll úr leik í undanúrslitum Opna ástralska mótsins, gegn Jannik Sinner, og hefur því ekki unnið mót á þessu ári.

„Engir titlar í ár. Það er ekki eitthvað sem ég er vanur,“ sagði Djokovic.

Nardi mætir Tommy Paul í sextán manna úrslitum á morgun en Bandaríkjamaðurinn sló út Frakkann Ugo Humbert, 6-4 og 6-4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×