Erlent

Heitir því að halda á­rásum í Líbanon á­fram þrátt fyrir vopna­hlé

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Varnarmálaráðherra Ísraels segir vopnahlé í suðri ekki þýða vopnahlé í norðri.
Varnarmálaráðherra Ísraels segir vopnahlé í suðri ekki þýða vopnahlé í norðri. EPA/Abir Sultan

Yoav Gallant varnarmálaráðherra Ísraels hefur heitið því að auka þungann í árásum þeirra á Hezbollah-samtökin í Líbanon jafnvel þó að vopnahlé náist á Gasasvæðinu.

Hezbollahliðar hafa verið að gera loftárásir á skotmörk í Ísrael með reglulegu millibili undanfarna mánuði frá því stríð hófst á Gasa. Ísraelsmenn hafa svarað hverri árás fullum hálsi. Tugir þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín báðum megin landamæra Ísraels og Líbanons vegna stöðugra loftárása og stórskotaliðsárása.

Úr jarðarför Ali Dibs herforingja Hezbollah sem var drepinn í ísraelskri loftárás fyrr í mánuðinum. AP/Mohammed Zaatari

„Við munum halda árásum áfram og við munum gera það óháð því sem gerist í suðri, þangað til við náum markmiðum okkar,“ segir varnarmálaráðherrann.

AP greinir frá því að Hassan Nasrallah, leiðtogi Hezbollah-samtakanna, hafi sagt í ávarpi sem hann hélt fyrr í mánuðinum að samtökin litu svo á að vopnahlé á Gasasvæðinu jafngilti vopnahlé á líbönsku landamærunum en að þau myndu svara öllum árásum Ísraelshers ef hann héldi þeim áfram.

Gamlar landamæraerjur

Um tvö hundruð vígamenn Hezbollah og 35 óbreyttir líbanskir borgarar hafa látið lífið síðastliðna fimm mánuði vegna nær daglegra árása og gagnárása. Í Ísrael hafa níu hermenn og níu borgarar sömuleiðis látist. Mestu átökin eiga sér stað við landamærin eða skammt frá þeim í báðar áttir.

Diplómatar frá Bandaríkjunum og Evrópuríkjum hafa lagt fram tillögur til breytinga á landamærum ríkjanna tveggja í von um að draga úr átökum þeirra á milli. 

Flestar eiga þær það sameiginlegt að vígamenn Hezbollah-samtakanna flytji sig fáa kílómetra frá landamærunum og að líbanski herinn auki viðveru sína þar. Ásamt því að viðræður eigi sér stað varðandi hluta landamæranna sem líbönsk yfirvöld halda fram að hafi verið numin af ísraelska hernum í kjölfar innrásar þess á níunda áratugnum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×