Erlent

Segir al­þjóða­sam­fé­lagið gleyma Súdan og vill 570 milljarða í að­stoð

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Martin Griffiths er yfirmaður hjálparsamtaka Sameinuðu þjóðanna. 
Martin Griffiths er yfirmaður hjálparsamtaka Sameinuðu þjóðanna.  AP

Yfirmaður hjálparsamtaka sameinuðu þjóðanna biðlaði í dag til a að gleyma ekki því neyðarástandi sem nú stendur yfir í Súdan, en þar hefur stríð geisað í landinu í tíu mánuði.

Sameinuðu þjóðirnar hafa gert beiðni um fjármagn upp á 4,1 milljarð Bandaríkjadala í neyðaraðstoð til íbúa Súdan, eða um 570 milljörðum króna.

Talið er að um 25 milljónir Súdana þurfi á mannúðaraðstoð að halda, en heildarmannfjöldi Súdan eru í kringum fimmtíu milljónir. 

Stríðið, sem stendur milli súdanska hersins og vígasveita RSF, Rapid Support Forces, hefur samkvæmt Reuters gjöreyðilagt innviði landsins og hungursneyð er yfirvofandi. 

Nærri tvær milljónir Súdana hafa flúið til nærliggjandi landa vegna stríðsins, Miðafríkulýðveldisins, Chad, Egyptalands, Eþíópíu og Suður-Súdan, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. 

Flóttamannastofnun SÞ og Samhæfingarmiðstöð mannúðarmála SÞ (OCHA) hafa nú gert ákall eftir samtals 4,1 milljarði dala fjármögnun fyrir neyðaðstoð sem duga á fyrir tæplega átján milljónir manna, bæði íbúa Súdan og flóttafólk í nærliggjandi ríkjum. 

„Megum ekki gleyma Súdan“

„Alþjóðasamfélagið gleymir Súdan,“ sagði Martin Griffiths, yfirmaður hjálparsamtaka Sameinuðu þjóðanna, á fundi SÞ í Genf í dag. 

„Það viðgengst viss ruddaskapur þegar kemur að mannúðarheiminum. Keppni í þjáningu, keppni milli staða: ég þjáist meira en þú, þannig að ég þarfnast meiri athygli, þannig að mig vantar meiri pening,“ sagði Griffths jafnframt.

OCHA sendi í fyrra beiðni um fjármögnun á mannúðaraðstoð í Súdan en fengu einungis helming þess styrks sem óskað var eftir. Griffiths ítrekaði í dag þörf á að alþjóðasamfélagið bregðist við því sem nú gengur á í landinu. 

„Við megum ekki gleyma Súdan,“ sagði Griffiths að lokum. „Það eru þau einföldu skilaboð sem ég hef að segja í dag.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×