Erlent

Vís­bendingar um að allt að 20 prósentum barna sé gefið melatónín

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sérfræðingar hafa bent foreldrum á að oft megi beita öðrum úrræðum til að bæta svefn.
Sérfræðingar hafa bent foreldrum á að oft megi beita öðrum úrræðum til að bæta svefn. Getty

Nærri einu af hverjum fimm börnum yngri en 14 ára í Bandaríkjunum er gefið melatónín til að bæta svefninn. Ný rannsókn bendir til þess að 18 prósentum barna á aldrinum fimm til níu ára sé gefið efnið.

Melatónín er náttúrulegt hormón sem myndast í líkamanum en framleiðsla þess ræðst af birtustigi. Þannig er lítið af efninu í líkamanum á daginn en framleiðslan eykst þegar myrkur færist yfir. Það hefur hins vegar færst í vöxt að fólk, og börn, taki melatónín sem lyf eða bætiefni til að bregðast við svefnvandamálum.

Notkunin hefur aukist svo mikið í Bandaríkjunum að í fyrra gaf American Academy of Sleep Medicine út viðvörun til foreldra þar sem þeir voru hvattir til að ráðfæra sig fyrst við lækni áður en börnum væri gefið melatónín.

Í Bandaríkjunum flokkast melatónín sem bætiefni en annars staðar sem lyf. Á Íslandi og víðar fer það eftir magni efnisins hvort það flokkast sem bætiefni eða lyf.

Ný rannsókn, sem greint var frá í tímaritinu JAMA Pediatrics, leiddi í ljós að notkun melatóníns meðal barna hefði aukist mjög síðustu ár. Rætt var við foreldra 993 barna og reyndust leikskólabörn taka efnið að meðaltali í um 12 mánuði, grunnskólabörn í um 18 mánuði og börn í kringum 12 ára í um 21 mánuð.

Höfundar rannsóknarinnar segja úrtakið lítið og því sé ekki víst að það endurspegli notkunina á landsvísu en aðrar rannsóknir hafa einnig bent til þess að notkun melatóníns hafi aukist verulega.

Könnun American Academy of Sleep Medicine frá því fyrr á þessu ári bendir til þess að um 46 prósent foreldra hafi gefið börnum sínum yngri en 13 ára efnið til að aðstoða við svefn. Þá eru feður líklegri til að gefa melatónín og yngri foreldrar.

Sérfræðingar hafa beint því til foreldra að fara með melatónín eins og lyf og spara notkun þess. Svefnvandamál sé oft hægt að meðhöndla með öðrum hætti. 

Lítið er vitað um áhrif langtímanotkunar efnisins. Þá hafa rannsóknir bent til þess að oft séu upplýsingar um magn þess í fæðubótarefnum misvísandi og magnið allt frá því að vera helmingi minna en gefið er upp, til þess að vera allt að fjórum sinnum meira.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×