Sport

Oscar Pistorius fær reynslu­lausn: Sleppur úr fangelsi 5 janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oscar Pistorius losnar úr fangelsinu á nýju ári.
Oscar Pistorius losnar úr fangelsinu á nýju ári. epa/STR

Suður-afríski frjálsíþróttamaðurinn Oscar Pistorius fór í dag fyrir skilorðsnefnd í fangelsi sínu í Suður-Afríku og hún veitti honum reynslulausn.

Hinn 37 ára gamli Pistorius verður látinn laus úr fangelsi 5. janúar næstkomandi. Pistorius þarf að framfylgja ákveðnum skilyrðum eins og að fara á námskeið í reiðistjórnum og sinna samfélagsþjónustu.

Pistorius var dæmdur fyrir að bana kærustu sinni Reeva Steenkamp fyrir rúmum tíu árum síðan eða á Valentínusardeginum 2013. Hann skaut hana í gegnum baðherbergishurðina en taldi sig vera að skjóta innbrotsþjóf.

Pistorius var á endanum dæmdur í þrettán ára og fimm mánaða fangelsi eftir að hæstiréttur þyngdi dóminn.

Móðir Steenkamp var ekki á móti reynslulausn en hún sættir sig samt ekki við þá skýringu Pistorius að hann hafi haldið Reevu vera innbrotsþjóf.

Pistorius var þjóðhetja eftir afrek sín í frjálsum íþróttum fatlaðra og vakti líka heimsathygli fyrir að keppa við heilbrigða á stórmótum eins og Ólympíuleikum. Hann missti báða fætur aðeins ellefu mánaða gamall. Pistorius vann alls sex gullverðlaun á Ólympíumótum fatlaðra frá 2004 til 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×