Sport

Mahomes lýsti yfir á­huga á Ólympíu­leikunum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Patrick Mahomes, tvöfaldur Ofurskálarmeistari með Kansas City Chiefs.
Patrick Mahomes, tvöfaldur Ofurskálarmeistari með Kansas City Chiefs.

Patrick Mahomes, leikstjórnandi Kansas City Chiefs í NFL deildinni, sagðist hafa áhuga á að spila fyrir bandaríska landsliðið á Ólympíuleikunum í Los Angeles 2028. Fánafótbolti verður ein af fimm nýjum ólympíuíþróttum það árið. 

Keppt verður í fánafótbolta (e. flag football) á Ólympíuleikunum 2028 í fyrsta skipti, hann er frábrugðinn þeim hefðbundna ameríska fótbolta sem iðkaður er í NFL deildinni. Leikmenn spila án hlífðarbúnaðar með fána festan í buxnastrenginn hangandi á sér. Í stað þess að leikur stöðvist með tæklingum er markmiðið að hrifsa fánann af leikmönnum. 

Auk fánafótbolta verður leikið í krikket, háfleik, skvassi og hafnarbolta/mjúkbolta í fyrsta skipti árið 2028. 

NFL deildin studdi áætlanir Ólympíunefndarinnar og mun vinna með leikmannasamtökum deildarinnar að því að koma leikmönnum á leikanna 2028 með það að markmiði að auka útbreiðslu íþróttarinnar á alþjóðavísu. 

Patrick Mahomes ræddi við blaðamenn í Frankfurt, en lið hans leikur þar við Miami Dolphins á sunnudag. Þetta er í annað skipti sem NFL leikur fer fram í Þýskalandi.

„Ekki spurning, ég hef áhuga á því að taka þátt. Ég hef séð fánafótbolta spilaðan og flestir þarna eru svolítið hraðari en ég. Þegar leikarnir verða haldnir verð ég orðinn 31, 32 ára gamall en vonandi get ég haldið í við þá og fleygt fótboltanum aðeins.“

„Bara ekki segja þjálfaranum [Andy] Reid eða framkvæmdastjóranum [Brett] Veach frá því“ bætti Mahomes við hlæjandi. 

Mikil spenna og eftirvænting ríkir meðal aðdáenda NFL deildarinnar eftir að fréttirnar bárust að fánafótbolti yrði spilaður á leikunum. Ljóst er að líkt og í körfuboltanum gætu Bandaríkjamenn borið algjöra yfirburði kjósi þeir að gera það og ef marka má orð Mahomes er spenna meðal leikmanna að taka þátt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×