Erlent

Juli­a Ormond höfðar mál á hendur Wein­stein, Dis­n­ey og Mi­ramax

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ormond var á hátindi frægðar sinnar þegar árásin átti sér stað.
Ormond var á hátindi frægðar sinnar þegar árásin átti sér stað. Getty/Matt Winkelmeyer

Leikkonan Julia Ormond hefur höfðað mál á hendur kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein vegna árásar í kjölfar kvöldverðar árið 1995. Hún krefst einnig bóta frá Disney, Miramax og fyrrverandi umboðsskrifstofu sinni.

Weinstein afplánar nú 23 ára fangelsisdóm vegna kynferðisofbeldis.

Ormond varð fræg fyrir myndir á borð við Legends of the Fall, First Knight, Sabrina og Smilla's Sense of Snow. Hún segir feril sinn hins vegar hafa farið niður á við eftir árás Weinstein.

Í dómsskjölunum segir að þegar Ormond var á hátindi ferils síns hefðu hún og Weinstein farið í íbúð á vegum Miramax eftir kvöldverð, þar sem framleiðandinn afklæddist og neyddi Ormond til að hafa við sig munnmök.

Þá segir að koma hefði mátt í veg fyrir árásina ef Miramax, framleiðslufyrirtæki Weinstein, og Disney hefðu tekið kvikmyndamógúlinn úr umferð þegar þeir komust að því að hann væri hættulegur konum.

Lýsingar Ormond ríma við frásagnir annarra kvenna af árásum Weinstein en lögmenn hans segja hann blásaklausan af ásökununum.

Í yfirlýsingu segist Ormond hafa þurft að lifa með minningunni um atvikið um langt skeið og að hún sé þakklát þeim sem stigu fram og vörpuðu ljósi á brot Weinstein. Með lögsókninni freisti hún þess að loka á umræddan kafla.

Yfir 80 einstaklingar hafa sakað Weinstein um kynferðisofbeldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×