Lífið samstarf

Réttar­morð er ný og æsi­spennandi hljóð­sería hjá Stor­ytel

Storytel
Í dag mánudag kemur út æsispennandi hljóðsería hjá Storytel sem nefnist Réttarmorð. Serían er eftir Sigurstein Másson og inniheldur sex þætti.
Í dag mánudag kemur út æsispennandi hljóðsería hjá Storytel sem nefnist Réttarmorð. Serían er eftir Sigurstein Másson og inniheldur sex þætti.

Réttarmorð eftir Sigurstein Másson er ný og æsispennandi hljóðsería sem fer í loftið hjá Storytel í dag mánudag. Um er að ræða sex þætti sem koma vikulega á Storytel næstu fimm mánudaga.

Þættirnir, sem innihalda um sjö klukkustunda efni, fjalla um Guðmundar- og Geirfinnsmálin sem hafa legið eins og mara á samfélaginu í næstum hálfa öld og flestir landsmenn þekkja.

Að sögn Sigursteins Mássonar, höfundar Réttarmorðs, kemur margt nýtt fram í seríunni sem ekki hefur komið fram áður í fyrri umfjöllunum. „Ég hef í þessum þáttum haft tækifæri til að fara mun dýpra í atburðarás og sögupersónur en áður. Gísli Guðjónsson, einn fremsti og þekktasti réttarsálfræðingur heims, er í stóru hlutverki og sömuleiðis Erla Bolladóttir en einnig fjölmargir aðilar sem tekin voru viðtöl við fyrir 26 árum síðan en þá aðeins birt lítill hluti af viðtölunum. Heilmikið hefur líka gerst á þessari öld sem fær ítarlega umfjöllun í þáttunum.“

Upphaf Guðmundar- og Geirfinnsmálanna má rekja til janúar 1974 þegar Guðmundur Einarsson, þá átján ára, hverfur sporlaust. Seinna sama ár hverfur hinn 32 ára Geirfinnur Einarsson en lík þeirra hafa aldrei fundist. Sex ungmenni voru handtekin og dæmd fyrir aðild að mannshvörfum og manndrápum. Fjörutíu árum síðar eru ungmennin sýknuð, öll nema Erla Bolladóttir.

Erla Bolladóttir er í stóru hlutverki í Réttarmorði. Mynd/Eva Schram.

Sigursteinn segir Guðmundar- og Geirfinnsmálin vera einstök, ekki aðeins á íslenskan mælikvarða heldur á heimsvísu. „Þegar dæmt var í þeim í Hæstarétti 1980 hafði það ekki áður gerst að fólk væri dæmt fyrir morð þótt engin lík eða líkamsleifar væru til staðar, engin morðvopn, vitni eða haldbær sönnunargögn. Það sem gerir þau líka afar sérstök er að þarna var gæsluvarðhaldi og einangrun beitt í þeim mæli að engin slík dæmi finnast annars staðar í heiminum. Sakborningar voru samtals í næstum 17 ár í gæsluvarðhaldi. Það hvernig þýskur lögregluforingi blandast svo inn í rannsóknina er síðan sér kapítuli fyrir sig.“

Sigursteinn Másson er höfundar Réttarmorð. Mynd/Eva Schram.

Sævar Cieselski og Erla Bolladóttir eru lykilpersónur í sakamálunum tveimur, baráttunni sem á eftir kom og saga þeirra tveggja er að sögn Sigursteins einskonar rauður þráður í gegnum þættina. „Ég sjálfur blandast síðan inn í atburðarrásina sem fór af stað 1996 með því að Sævar kemur heim til mín með öll málsgögnin og biður mig að skoða þessi mál. Úr urðu tveir heimildarþættir sem vöktu marga til vitundar um alvarlegar brotalamir í rannsókn og meðferð sakborninga.“

Mynd/Eva Schram.

Hann segir áheyrendur eiga von á afar upplýsandi og spennandi seríu. „Ég held ég geti með góðri samvisku sagt að hér sé um að ræða þá allra ítarlegustu ljósvakaumfjöllun sem farið hefur verið út í um Guðmundar- og Geirfinnsmálin frá upphafi.“

Mynd/Eva Schram.

Þættirnir varpi þannig ljósi á fjölmörg ný atriði í málunum sem sýna, svo ekki verður um villst, hve illa út af sporinu lögregla, saksóknari og dómstólar fóru í þessum undarlegu málum. „En ekki bara þessir aðilar heldur einnig stjórnmálamenn og fjölmiðlar. Ég trúi því að áheyrendur, sem ýmist þekkja málin lítið sem ekkert eða telja sig þekkja þau býsna vel, munu finna í þáttunum spennandi og áhrifamiklar frásagnir og borðleggjandi staðreyndir sem koma á óvart og munu hreyfa við þeim.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×